screen-shot-2016-10-05-at-17-51-57

Þrátt fyrir framfarir í læknavísindum hafa lífslíkur mannfólks ekki aukist marktækt á síðust 20 árum. Það kann því að vera að við séum nú þegar búin að ná hámarkslífslíkum.

Í grein sem birtist í Nature í gær er farið yfir niðurstöður rannsóknarhóps sem greindi gögn um lífslíkur fólks í fleiri en 40 löndum.

Samkvæmt útreikningum vísindamannanna hafa lífslíkur farið vaxandi frá því árið 1900 sem má að miklu leyti rekja til framfara í heilbrigðisvísindum. Annað kom þó í ljós þegar fjöldi einstaklinga sem lifði lengur en til 110 ára aldurs var skoðaður í þeim fjórum löndum þar sem slíkt er hvað algengast: Bandaríkjunum, Frakklandi, Japan og Bretlandi. Fjöldi einstaklinga sem lifði lengur en til 110 ára aldurs fór hækkandi þar til árið 1995 en virðist hafa staðnað eftir það.

Rannsóknarhóprinn dregur því þá ályktun að náttúrulegur hámarksaldur mannfólks sé líklega um 115 ár, þó ekki sé útilokað að vísindunum takist að lengja hann í framtíðinni. Í fréttatilkynningu leggja vísindamennirnir til að vísindamenn einbeiti sér fremur að því að auka þann tíma sem fólk er heilsuhraust frekar en að reyna að fjölga árunum sem það lifir.