Hvatinn fær ekki nóg af því að dásama örveruflóruna. Það er einhvern veginn allt samhangandi með þessum utanaðkomandi frumum sem við hýsum í líkama okkar. Rannsóknir þess eðlis eru alltaf að verða fleiri og fleiri, okkur til mikillar gleði.

Eins og lesendur okkar gætu hafa gert sér grein fyrir þá er bakteríur að finna alls staðar, líka í nefinu á okkur. Nýleg rannsókn bendir til þess að samsetning örveranna þar hafi einmitt áhrif á hversu alvarleg kvef einkenni við þróum með okkur þegar við smitumst af kvefi.

Kvef er veirusýking sem lýsir sér með hori, hósta og almennum slappleika. Þær eru nokkrar veirurnar sem geta valdið þessum kvilla og hafa margir haldið að það sé ástæða þess að kvefið leggst misilla í okkur. Rannsóknarhópur við University of Virginia Health System, skoðaði hvort fylgni væri á milli örveruflórunnar í nefinu og þess hversu slæmt kvef við fáum.

Í ljós kom að hægt er að skipta fólki gróft upp í sex hópa, byggt á örveruflóru þeirra. Þó þessir sömu hópar smitist allir af sömu kvefveirunni, er hægt að spá fyrir um alvarleika veikindanna með tegundaflóruna í höndunum. Þeir sem hafa t.d. hátt hlutfall staphylococcus fá yfirleitt verra kvef.

Alvarleiki kvefeinkennanna ræðst ekki af veirustofninum en fjöldi veiranna virðist ráða einhverju þar um. En veirumagnið var einmitt mismunandi milli hópana sex sem hafa mismunandi örveruflóru, þ.e. veirumagnið fylgir af bakteríuflórunni.

Hvort hér sé um að ræða fylgni eða orsakasamhengi skal ósagt látið. Mögulega er það þriðji þátturinn sem ræður hvorutveggja. Hér voru 152 einstaklingar skoðaðir, bæði fyrir og eftir smit með sama veirustofninum. En þó er frekari rannsókna þörf til að skera úr um hver hinn raunverulegi orsakavaldur er.