phthalates

Algengara virðist orðið að börn glími við hina ýmsu kvilla, allt frá ofnæmum að einhverfu. Mögulega má rekja það að hluta til, til efna sem við erum óafvitandi að bjóða börnunum okkar uppá strax í móðurkviði.

Phthalates er efni sem finnst oft í plasti, matvælum og einnig snyrtivörum. Það er oftast notað til að gera plastið sveigjanlegra og endingabetra. Nýjar rannsóknir benda nú til þess að efnið hafi áhrif á þroskun kynfæra í fósturþroska. Rannsókn þess efnis var kynnt á dögunum í San Diego á 97. ráðstefnu Endocrine Society. Rannsóknina leiddi Shanna S. Swan, við Icahn School of Medicine í Mount Sinai.

Rannsóknin er framhaldsrannsókn en í henni og undangengnum rannsóknum var inntaka phthalates metin með því að mæla niðurbrotsefni í bæði þvagi og blóði 350 kvenna á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Að auki var magn human chorionic gonadotropin (hCG) mælt í blóði og þvagi kvennanna og kom í ljós að samhliða aukinni inntöku á phthalates minnkaði magn hCG í blóði kvenna sem gengu með drengi. Aftur á móti virtust áhrif phthalates inntöku öfug á konur sem gengu með stúlkur.

hCG er hormón sem eingöngu er framleitt í fylgju, en fylgjan sér að stórum hluta um framleiðslu hormóna hjá þunguðum konum. hCG er einmitt það sem þungunarprófa mæla, þar sem það er aldrei framleitt nema um þungun sé að ræða.

Að auki voru mælingar á hCG tengdar við líkamlegt ástand barnanna við fæðingu. Drengir sem fæddust mæðrum með hátt magn hCG í blóði eða þvagi voru að meðaltali með styttra bil milli endaþarms og kynfæra. Styttra bil milli kynfæra og endaþarms hefur verið tengt við litla framleiðslu á sæði og ófrjósemi. hCG virðist því spila lykilhlutverk í þroskun kynfæra drengja. Telur rannsóknarhópurinn að phthalates hafi bein áhrif á hCG og jafnvel fleiri hormón sem koma við sögu í fósturþroska.

Rannsóknin sýnir að efni sem finnast í umhverfinu geta haft afgerandi áhrif á fóstuþroska og að áhrifin eru ekki endilega sambærileg milli kynjanna. Það er mikilvægt að skoða þessa hluti til hlýtar, sérstaklega með það í huga að margar raskanir eru algengari í drengjum en stúlkum eins og til dæmis einhverfa, athyglisbrestur og ófrjósemi.

Fyrir þá sem vilja kynna sér málin betur má lesa meira um rannsóknina hér.