brain

Hópur vísindamanna við RIKEN Center for developmental biology í Japan hefur tekist að örva stofnfrumur til að mynda líffæri sem líkist litla heila. Niðurstöður þessar eru birtar í nýjasta tölublaði CellPress. Hópurinn hafði áður unnið með fósturstofnfrumur úr músum til að skilgreina hvaða þættir voru nauðsynlegir til að örva taugafrumuþroskun.

Mannastofnfrumurnar voru ræktaðar í þrívíðri ræktun en þá er frumunum komið fyrir í nokkurs konar geli sem líkir eftir þeim efnum sem finnast utanum frumur í líkamanum og kallast utanfrumuefni eða á ensku extra cellular matrix (ECM). Með þessu móti er hægt að fylgjast með því hvernig frumurnar bregðast við umhverfi sínu og hvernig þær skynja boð hver frá annarri.

Til að hafa áhrif á þroskun frumnanna var ýmsum boðefnum bætt útí ræktina og vegna þess að ræktin er þrívíð dreifast boðefnin ekki jafnt á allar frumur, nokkurn veginn eins og gerist í líkamanum. Fylgst var með frumunum þroskast í hinar ýmsu frumugerðir sem saman mynda heilavefinn. Þegar virkni frumnanna var prófuð með rafboðum svöruðu þær eins og búist var við af heilafrumum. Með þessari rannsókn eru vísindamenn einu skrefi nær því að skilja og skilgreina þroskun og uppbyggingu heilans. Vonir vísindamannanna sem komu að þessari rannsókn standa til þess að niðurstöðurnar leiði einnig til enn frekari framfara í meðhöndlun á sjúkdómum tengdum heilanum.

Hægt er að nálgast greinina hér.