096957-skin-cancer-melanoma

Þróun krabbameinslyfja miða að því að gera lyf sértækari fyrir krabbameinsgerðum. Í slíkum rannsóknum geta veirur komið sér vel en veirur eru, ef svo má að orði komast, með lúmskari fyrirbrigðum lífheimsins. Herpes-veiran, sem veldur meðal annars frunsu og kynfæravörtum, er þar engin undantekning en hún er ein þeirra veira sem innlima erfðaefni sitt á eigin litning fórnarlamba sinna. Nú hefur Herpes veiran verið notuð til að bæta meðferðarúrræði gegn húðkrabbameini sem ekki er hægt að fjarlæga með skurðaðgerð.

Herpes-veiran er erfðabreytt svo hún ráðist sértækt inní æxlisfrumur og fjölgi sér þar, að auki framleiðir hún þar GM-CSF (granulocyte macrophage colony-stimulating factor), efni sem örvar ónæmiskerfið til árása á æxlisvöxt. Um það bil 400 krabbameinssjúklingum með húðkrabbamein á stigi 3-4 var annars vegar gefin veiran sem kallast T-VEC, meðan viðmiðunarhóp var einungis gefið GM-CSF, í allt að 6 mánuði og áhrif þess á krabbameinið skoðuð.

Hópurinn sem fékk T-VEC sýndi almennt marktækt betri viðbrögð við lyfinu en viðmiðunarhópurinn og sýndi meðal annars lengri lifun. T-VEC hópurinn lifði að meðaltali í 23,3 mánuði meðan viðmiðunarhópurinn lifði að meðaltali 18,9 eftir meðferð. Helstu aukaverkanir við veirulyfinu voru flensulík einkenni við fyrstu lyfjagjöf.

Fram til þessa sýnir þetta lyf bestu útkomu veirulyfja gegn krabbameini sem náðst hefur í fjöldamörgum rannsóknum sem farið hafa fram á því sviði. Næsta skref er að fá leyfi til framleiðslu lyfjanna bæði fyrir bandarískan og evrópskan markað. En vonir standa til að það gerist strax árið 2016.

Rannsóknin var styrkt af lyfjafyrirtækinu Amgen, sem mun framleiða lyfið ef leyfi fæst fyrir því. En Amgen er einmitt fyrirtækið sem keypti Decode síðla árs 2012 .

The Guardian greindi frá rannsókninni á heimasíðu sinni á miðvikudag.