Mynd: CBS news
Mynd: CBS news

Margir kannast við að finna fyrir hárþynningu efst á höfði við ákveðinn aldur og nefnist þetta fyrirbæri því leiða nafni skalli. Skallar eru þó nokkuð algengir, aðallega meðal karla, en þrátt fyrir það oft taldir vera mikið feimnismál og leita margrir lausna til að fá yngingarljóma sinn aftur, sem virðist þá aðallega fólginn í þykkum hárvexti. Skallameðferðir hafa oftar en ekki fallið undir hinn svokallaða snákaolíuflokk, en nú virðist sem vísindahópur við Columbia University hafi mögulega fundið leið að snúa þessu ferli við.

Hópurinn var að rannsaka hlutverk ensíma sem kallast Janus Kínasar (JAK) í sjúkdómi sem herjar á ónæmiskerfið. Við rannsóknina var virkni ensímanna hindruð með þekktum JAK hindrum. Við útvortis áburð hindranna virkjaðist hárvöxtur í músum sem höfðu misst hárin. Það sama var uppá teningnum þegar hindrarnir voru prófaður á mannafrumum í rækt. Þetta bendir til þess að JAK ensímin gegni hlutverki við að bæla hárvöxt í hársekkjunum þegar þeir eru í hvíldarfasa. árvöxtur fer í gegnum hringi þar sem hárið vex hratt og síðan fer hársekkurinn í hvíld. Við vissar aðstæður teygist á hvíldinni og hárvöxturinn stoppar nánast alveg, til dæmis þegar líkaminn er undir mjög miklu álagi eða við ákveðna sjúkdóma.

Enn á eftir að athuga hvort JAK hindrarnir hafi sömu áhrif á hormónadrifna skallamyndun, en hjá karlmönnum er skallamyndun yfirleitt tilkomin vegna flæðis hormóna. Hins vegar geta JAK hindrarnir gert mikið gagn fyrir sjúklinga sem fara í gegnum krabbameinsmeðferð eða aðra erfiða meðferð sem leiðir til hármissis.

Hér að neðan má sjá viðtal við Angela M. Christiano sem stjórnaði rannsókninni.