Bakteríur eru ótrúlegar lífverur sem þurfa ekki nema nokkra klukkutíma til að aðlagast nýjum aðstæðum. Það er til dæmis af þeirri ástæðu sem sýklalyfjaónæmar bakteríur eru vaxandi vandamál í heiminum. Sýklalyfjaónæmið verður til þegar bakteríur komast í langvarandi snertingu við sýklalyf sem ekki ná að drepa þær. Bakteríurnar finna sér leið til að lifa af og dreifa svo geninu sem bjargar þeim.

Ein leiðin til að dreifa sýklalyfjaónæmi er hliðlægur genaflutningur. Genin sem gefa bakteríunum ónæmið er oft staðsett á erfðaefni sem er pakkað saman í svokallað plasmíð. Plasmíð er ekki hluti af litningum bakteríanna heldur eins konar sjálfstæður genabútur sem lifir í umfrymi bakteríanna. Bakteríur flytja þessi plasmíð gjarnan á milli sín og nýta sér erfðaefnin sem þarna er að finna. Ef erfðaefnið reynist þeim vel í baráttu sinni fyrir lífinu þá halda þær í plasmíðið, ef ekki þá henda þær því út.

Rannsóknarhópur við University of Montreal hefur nú nýlega birt rannsókn sína í Scientific Reports, þar sem þau vinna að því að hindra upptöku baktería á plasmíðum. Með því að hindra upptökuna geta bakteríurnar ekki tjáð genin sem geyma sýklalyfjaónæmið, þær hafa ekkert slíkt gen, og því geta þær ekki lifað í návist lyfjanna.

Til að hindra þessa upptöku notaði hópurinn TraE hindra, en TraE er prótín sem gegnir lykilhlutverki við flutning plasmíða milli baktería. TraE hrindir af stað ferlinu sem færir plasmíðið inní nýja bakteríur. Með þvi að finna einhvers konar hindra sem bindast TraE og afvirkja það er hægt að koma í veg fyrir flutning á erfðaefninu.

Með því að skanna fjölda efnasambanda sem hugsanlega gætu haft áhrif á prótínið og þar með plasmíðflutninginn, fann hópurinn efni sem binst prótíninu á tveimur stöðum. Efnið 2-(2-furyl)isonicotinic acid, sem í rannsókninni gekk undir nafninu 239852, binst við TraE á þeim tveimur stöðum sem eru prótíninu nauðsynlegir til að hrinda virkni þessi í framkvæmd.

Vísindahópurinn bindur vonir við að hægt verði að nota þetta efnasamband sem lyf til að gefa sjúklingum samhliða sýklalyfjum. Þannig mætti koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmi. Slík lyfjagjöf er þó ekki í nálægri framtíð þar sem þessar rannsóknir hafa einungis verið gerðar á sameindastigi og enn er t.d. ekkert vitað um áhrif sameindarinnar á fólk.