Mynd: RedOrbit
Mynd: RedOrbit

Hvatinn sagði nýlega frá nýrri tækni sem vísindamenn bundu miklar vonir við að hægt væri að nota til að lækna HIV í framtíðinni í stað þess að halda því aðeins niðri. Tæknin byggir á því að “klippa” HIV veiruna úr erfðaefninu með því að nota tækni sem nefnist CRISPR/Cas9.

Því miður benda niðurstöður nýrrar rannsóknar til þess að HIV gæti þróað með sér hæfileikann til að lifa af CRISPR á aðeins tveimur vikum og það sem meira er gæti notkun á tækninni verið að ýta undir stökkbreytingar á veirunni sem gera hana enn sterkari en áður.

Í rannsókn sem leidd var af Chen Liang við McGill Háskóla í Kanada var CRISPR notað til að klippa upp DNA HIV veirunnar í mannafrumum. Í fyrstu virtist sem að tilraunin hafi virkað vel og tekist hefði að ráða niðurlögum veirunnar.

Aðeins tveimur vikum seinna kom í ljós að svo var ekki. Veiran var aftur til staðar í frumum og hafði stökkbreyst svo nú var hún bæði sterkari og að því er virtist ónæm fyrir CRISPR tækninni. Niðurstöðurnar voru birtar nýlega í tímaritinu Cell.

Fréttirnar eru þó ekki eingöngu slæmar því Liang telur að hægt verði að fá betri niðurstöður með því að klippa DNA veirunnar á fleiri stöðum en gert var í upprunalegu rannsókninni. Einnig telur hann að mögulega myndi annað ensím en Cas9, sem notað var í fyrri rannsókninni virka betur.

Þess má einnig geta að enn sem komið er sýnir rannsókn vísindamanna við Temple University enn jákvæðar niðurstöður svo fréttirnar eru ekki alslæmar.