Mynd: Doctor; The Distinct Nature of Social Behavior
Mynd: Doctor; The Distinct Nature of Social Behavior

Ónæmiskerfið gegnir því hlutverki að berjast við sýkingar, það vinnur daginn út og inn að því að losa okkur við það sem ónæmiskerfið telur óæskileg efni eða lífverur sem komast inní líkama okkar. Þangað til núna höfum við litið á þetta vandasama hlutverk sem eina hlutverk ónæmiskerfisins, en samkvæmt nýrri rannsókn gæti það verið misskilningur.

Rannsóknin, sem var framkvæmd í músum skoðaði áhrif prótínsins interferon gamma (IFNγ) á félagshegðun. IFNγ er prótín sem tekur þátt í ónæmissvari líkamans, þegar veira eða baktería kemst inní líkamann hefst tjáning á IFNγ og prótínið tekur m.a. þátt í því að stöðva fjölgun veiranna og kalla til fleiri varnir ónæmiskerfisns. Sé þetta prótín ekki til staðar á ónæmiskerfið erfiðara með að berjast við sýkingar og, samkvæmt rannsókn vísindahóps við University of Virgina, hafa hemil á hegðun sinni.

Mýsnar sem ekki tjáðu INFγ eyddu litlum tíma í að hafa samskipti við aðrar mýs. Hins vegar þegar þeim var bættur upp skorturinn á INFγ, fóru þær að hegða sér nær því sem eðlilegar mýs gera. Á sama tíma fylgdist hópurinn með heilastarfsemi músanna, en sá hluti heilans sem stjórnar m.a. félagslegri hegðun varð mjög virkur þegar INFγ var ekki til staðar, eins og engin stjórn væri á honum. Af þessum má draga þá ályktun að prótínið hefur áhrif á hegðun músanna ekki síður en getur þeirra til að berjast við sýkingar.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá Jonathan Kipnis og Anthony Filiano lýsa niðurstöðum rannsóknar sinnar, sem óneitanlega gæti í haft áhrif á hvernig við meðhöndlum taugasjúkdóma og ónæmissjúkdóma í framtíðinni. Þessar niðurstöður gætu til að mynda skýrt hvers vegna tengsl hafa fundist milli taugasjúkdóma og ofnæmissjúkdóma.

Enn sem komið er vitum við ekki hvort sömu áhrifa er að gæta í mönnum, við getum hins vegar sagt með þó nokkurri vissu að INFγ stjórnar félagslegri hegðun músa.