Mynd: The Odyssey
Mynd: The Odyssey

Hnetur eru holl og góð prótín- og fituuppspretta, nema auðvitað fyrir þá sem eru með ofnæmi, í slíkum tilfellum eru hnetur ekki sérlega hollar hvað þá góðar. Hnetur og inntaka þeirra hefur verið tengd við minni líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki tvö sem og fleiri svokölluðum lífstílssjúkdómum.

Einn er þó sá sjúkdómur sem hnetur virðast ekki hafa mikil áhrif á og það er krabbamein, eða réttara sagt myndun krabbameina. Samkvæmt rannsókn sem birt var í British Journal of Cancer virðist nefnilega að áhrif hnetanna gæti ekki við myndun krabbameina heldur við framvindu þeirra.

Í rannsókninni var fylgst með körlum sem greinst höfðu með krabbamein í blöðruhálskirtli. Alls voru þáttakendur með blöðruhálskirtilskrabbamein 6810 og voru þeir beðnir um að svara spurningum um hnetuinntöku sína við greiningu og síðan fjórða hvert ár fram til ársins 2012 ef einstklingurinn lifði svo lengi.

Í ljós kom að þeir þátttakendur sem borðuðu hnetur fimm sinnum í viku eða oftar voru um þriðjungi ólíklegri til að deyja af völdum krabbameinsins, í samanburði við þá sem borðuðu hnetur í minna mæli. Enn sem komið er er ekki vitað hvað það getur verið í hnetum sem veldur þessum mun en vísbendingar hafa borist að seleni, sem virðist vera ástæða þess að brasilíuhnetur minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður er þó enn ekkert sem bendir til þess að hnetur gegni hlutverki við að sporna gegn myndun krabbameina. Því getur einnig verið að hægt sé að finna ástæðu þessara góðu áhrifa hnetanna í öðrum umhverfisþætti sem ekki var skoðaður í þessari tilteknu rannsókn. Getur t.d. verið að einhverjir einstaklingar hafi aukið inntöku á hnetum vegna annarra lífstílsbreytinga í kjölfar krabbameinsgreiningar?

Það verður spennandi að fylgjast með því hvaða efni það er í hnetunum eða hvaða fylgifiskur hnetanna það er sem virðist hafa þessi töfraáhrif á lifun krabbameinssjúklinga.