Vísindamenn hafa í fyrsta sinn borið kennsl á ummerki Alzheimer í höfrungum. Fyrr á árinu var tilkynnt um ummerki Alzheimer í simpönsum í dýragörðum og á rannsóknarstofum en þetta er í fyrsta sinn sem ummerki sjúkdómsins sjást í villtum dýrum.

Vonir standa til að uppgötvunin muni hjálpa vísindamönnum að skilja sjúkdóminn betur og að lokum finna nýjar leiðir til að meðhöndla hann.

Þó höfrungar og mannfólk virðist við fyrstu sýn ekki eiga margt sameiginlegt eigum við það sameiginlegt með höfrungum að lifa langt framyfir æxlunaraldur okkar. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að rannsóknarhópurinn vildi kanna hvort höfrungar glímdu einnig við aldurstengda sjúkdóma á borð við Alzheimer.

Það reyndist vera raunin og fundust óeðlileg próteinbrot í heilum villtra höfrunga sem talin eru leiða til Alzheimer í mannfólki. Þessi óeðlilegu próteinbrot lýsa sér sem skellur (e. plaques) og flækjur (e. tangles) sem með tímanum drepa frumur í heilanum og leiða til einkenna á borð við minnistap, samskiptaörðuleika og hnignunar á vitsmunalegri getu.

Enn er óljóst hvernig hrörnun heilans á þennan hefur áhrif á höfrunga en að sögn höfundanna benda niðurstöðurnar á mikilvægi þess að bera saman mismunandi tegundir þegar sjúkdómar eru rannsakaðir.

Í dag eru mýs að miklu leyti notaðar við rannsóknir á Alzheimer en eru ekki taldar vera besta módelið fyrir sjúkdóminn vegna þess hve ólíkur lífsferill þeirra er lífsferli manna. Það kann því að vera að höfrungar væru betra viðmið. Vísindamennirnir mæla þó gegn því að höfrungar séu ræktaðir í þeim tilgangi að rannsaka sjúkdóminn en höfrungarnir í rannsókninni dóu allir af náttúrulegum orsökum og fundust við strendur Spánar.

Niðurstöðurnar eru ekki aðeins mikilvægar fyrir rannsóknir á Alzheimer heldur telja vísindamennirnir að lífsferill höfrunga geti sagt okkur eitthvað um tengsl mataræðis og ævilengdar.

Um þessar mundir njóta föstur, á borð við 5:2 mataræðið, vinsælda og hafa rannsóknir, meðal annars á músum bent til þess að reglulegar föstur geti lengt lífið.

Að sögn Simon Lovestone sem leiddi rannsóknina á höfrungunum, kann að vera að föstur hafi þó ekki áhrif á ævilengd mannfólks. Í dag er talið að insúlínnæmi okkar sé einn sá þáttur sem gerir okkur kleift að lifa eins lengi og raun ber vitni og í raun séu sjúkdómar á borð við Alzheimer og sykursýki fylgikvilli þess. Þó föstur gefi góða raun í músum gæti því verið að vegna þróunar okkar hafi fastan ekki sömu áhrif í mönnum, insúlínnæmi okkar hafi nú þegar gefið okkur nokkur auka ár sem takmörkun á hitaeiningum hefði annars geta gert.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tímaritinu Alzheimer’s & Dementia og var rannsóknin unnin af vísindamönnum frá fjölda háskóla, meðal annars University of Oxford, University of Edinburgh, University of St. Andrews og University of Florida.