apple_greentea

Þeir sem borða mikið af grænmeti og ávöxtum eru síður líklegir til að þróa með sér sjúkdóma eins og krabbamein eða hjarta og æðasjúkdóma. Efni sem kallast polyphenól fyrirfinnast í t.d. eplum og grænu tei, en þau eru þekkt fyrir að hafa hamlandi áhrif á ákveðin boðefni líkamans. Í nýrri rannsókn sem unnin var við Institute of food research í Bretlandi, voru þessi efni prófuð í frumurækt til að herma eftir hver áhrif þeirra eru í líkamanum.

Efnin epigallocatechin gallate (EGCG) sem finnst m.a. í grænu tei og procyanidins sem er t.d. í eplum eru andoxunarefni sem vitað er að hafa hamlandi áhrif á boðefnið vascular endothelial growth factor (VEGF). Þetta boðefni örvar æðamyndun í líkamanum. VEGF er til dæmis hamlað með ákveðnum krabbameinslyfjum vegna þess að hliðarverkun krabbameina er myndun æðakerfis sem sér um að dæla næringarefnum í meinið. Að auki virðist VEGF hafa áhrif á æðakölkun og eykur þannig líkur á hjarta og æðasjúkdómum.

Áhrif efnanna, sem einangruð voru úr eplum eða grænu tei á æðaþelsfrumur í rækt kom berlega fram í hindrun þeirra á VEGF, þegar efnin voru gefin í lágum styrk. Þetta gefur vísbendingar um að sé efnanna neytt geti það haft áhrif á VEGF í líkamanum. Að auki virkja efnin ensímferilinn sem leiðir til aukningar á nituroxíði (NO) sem einnig verndar æðakerfið.

Í framhaldi af þessari rannsókn þarf að skoða enn betur hvernig áhrif polyphenól hafa í líkamanum, en frumuræktarlíkön gefa einungis vísbendingar um virkni. En polyphenól er að finna í fleiri ávöxtum og grænmeti en eplum og grænu tei, sem flest hafa sannað gildi sitt varðandi hollustu. Auðvitað gildir meðalhófið i þessu sem öðru en þessi rannsókn ásamt svo ótalmörgum sýna enn og aftur hversu miklu máli það skiptir að borða hollt.