golden-retriever

Samskipti hunda og manna eru einstök. Þrátt fyrir að vera mjög ólíkar dýrategundir er engum blöðum um það að fletta að hundurinn er besti vinur mannsins. Eins og margir þekkja eru hundar afsprengi úlfa, sem fyrir margt löngu hafa verið aldir sem húsdýr inná heimili manna og með tímanum hefur þróast ný tegund sem við köllum hunda. En hvers vegna höfum við ekki svipuð samskipti við úlfa, þessa náfrændur bestu vina okkar?

Í nýbirtri rannsókn sem skoðaði 60 golden retriever hunda var leitast við að svara því hvers vegna hundar eru svona viljugir til að hafa samskipti við mennina. Rannsóknin var unnin við Linköping University í Svíþjóð og er ansi yfirgripsmikil eins og gefur að skilja með 60 hunda sem viðfangsefni.

Hundarnir 60 fengu allir það hlutverk að komast ofan í dós með nammi. Í fyrstu var lokið lauslega fest, svo það reyndist hundunum auðvelt að ná namminu. Í seinni tvö skiptin var lokið mun fastara en þá gekk prófið útá að skoða hversu langur tími liði áður en hundarnir bæðu um hjálp, eftir meðferð með hormóni eða lyfleysu.

Áður en hundarnir reyndu að losa lokið sem hafði verið fest var þeim annars vegar gefið hormónið oxýtósín eða saltvatnslausn, með úða í nefið. Oxýtósín er hormón sem stundum kallast ástarhormónið, reyndar gegnir það líka hlutverki í hríðum og þess vegna gengur það líka undir nafninu hríðarhormón. Oxýtósín er eitt af lykilhormónum í samskiptum milli manna og reyndar líka í samskiptum manna við dýr.

Þegar hundarnir fengu oxýtósín varð ákveðinn hópur hundar marktækt fljótari til að biðja um hjálp. Í ljós kom að þessi ákveðni hluti hópsins hafði sérstakan breytileika í erfðaefninu, rétt fyrir framan genið sem skráir fyrir oxýtósín-viðtakanum. Breytileikinn hefur ekki bein áhrif á gerð viðtakans, sem er prótín á frumuhimnunni sem hormónið binst við.

Þrátt fyrir að áhrifin séu ekki bein þá eru þau samt sem áður mjög greinileg. Þessi breytileiki leiðir til þess að hundarnir eiga auðveldara með mannleg samskipti. Til samanburðar var erðfaefni úlfa einnig skoðað og kom þá í ljós að þessi breytileiki hefur einnig verið til staðar áður en tegundirnar aðskildust.

Líklegt er að með tíð og tíma hafi hundaeigindur togað í þennan eiginleika, þar sem reynt er að halda í þau kyn sem hafa ákveðna jákvæða eiginleika. Þá má leiða að því líkur að eiginleikinn er algengari meðal hunda en úlfa sem sýna ekki sömu hæfni til mannlegra samskipta.