Þrívíð prentun á kannski ekki mikið skylt við hina hefðbundnu prentun. Með þrívíðri prentun er vísað í smíði hluta með hjálp hugbúnaðar sem hægt er að mata á upplýsingum um byggingu og eiginleika hlutarins. Tækið sem prentar hlutinn þarf að tala við hugbúnaðinn til að vitað hvað á að smíða og að auki að vera matað með réttum efnum til að eiginleikar hlutarins verði réttir.

Það sem er líklegast helstu flöskuháls þrívíðrarprentunar er að finna rétt efni sem prentararnir geta notað. Í tilfellum þar sem leitast er við að prenta lífræna hluti eins og líffæri, hefur stundum verið talað um líf-blek eða bio-ink. Stóru framfarirnar í nýlega birtum hornhimnurannsóknum felast einmitt í því að finna rétta uppskrift af líf-bleki fyrir hornhimnuvefinn.

Rannsóknarhópur við Newcastle University notaði vefjasérhæfðar stofnfrumur úr hornhimnu, algínat og kollagen sem líf-blek hornhimnanna sinna. Þegar öllu var blandað saman í réttum hlutföllum var hægt að notast við uppskriftina til að prenta hornhimnu með réttri lögun. Rúsínan í pylsuendanum var svo sú staðreynd að prentuðu hornhimnuna var hægt að rækta, þ.e. hún lifði áfram í frumurækt.

Ef áframhaldandi rannsóknir sýna fram á að hægt verði að græða prentaðar hornhimnur í auga manneskju gætum við horft uppá stórkostlegar framfarir í meðhöndlun augnsjúkdóma sem sumir hverjir geta leitt til blindu.

Þar sem líf-blekið sem hér er notað er að hluta til byggt úr vefjasérhæfðum stofnfrumum er ekki útilokað að hægt verði að nálgast stofnfrumur hjá hornhimnuþegunum sjálfum. Með því móti er verið að gefa einstaklingnum nýtt líffæri sem litlar líkur eru á að líkaminn hafni. Það eru því sannarlega spennandi tímar framundan.