adhd

Börn með ADHD eiga eins og gefur að skilja gríðarlega erfitt með það að sitja kyrr í lengri tíma. Fyrstu viðbrögð fullorðinna gegnum tíðina hafa oft verið að segja börnunum að hætta að hreyfa sig og einbeita sér. Þetta gæti, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, þó verið kolröng nálgun.

Í rannsókninni, sem gerð var við University of Central Florida, var hegðun 52 tveggja drengja á aldrinum 8-12 ára skoðuð. 29 drengjanna höfðu verið greindir með ADHD en hinir 23 ekki. Drengirnir voru beðnir um að leysa ýmis verkefni, svo sem að raða tölum og bókstöfum eftir ákveðnu mynstri, og voru þeir teknir upp á myndband á meðan.

Í ljós kom að þegar drengirnir með ADHD hreyfðu sig á meðan þeir leystu verkefnin stóðu þeir sig marktækt betur en ef þeir gerðu það ekki. Drengirnir sem ekki voru greindir með ADHD stóðu sig hins vegar verr ef þeir voru á hreyfingu.

Þetta er í fyrsta skipti sem sýnt er fram á að hreyfing hjá ADHD börnum þjóni tilgangi við einbeitingu. Fyrsti höfundur greinarinnar sagði í samtali við EurekAlert! að börnin þurfi hreinlega að hreyfa sig til að viðhalda einbeitingunni. Niðurstöðurnar gætu hjálpað okkur að skilja hvernig er best að fá börn með ADHD til að einbeita sér í þeim aðstæðum þar sem þess er krafist, t.d. í prófum. Ein tillagan er sú að hugsanlega gæti börnum gengið betur að einbeita sér ef þau sætu á líkamsræktarboltum eða hjólum.

Rannsóknarniðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Journal of Abnormal Child Psychology.