Mynd: A Triathletes Diary
Mynd: A Triathletes Diary

Varla er hægt að efast um þá kosti sem fylgja því að hreyfa sig reglulega en rannsóknir sýna trekk í trekk hversu mikilvægt það er fyrir líkamann að sitja ekki bara á rassinum allan daginn. Hreyfing er oft besta meðalið við mörgum sjúkdómum, svo ekki sé talað um hvernig hún getur fyrirbyggt þá marga, eins og sykursýki týpu tvö eða hjarta og æðasjúkdóma. Því miður er það samt svo að sumir einstaklingar sem þjást af fyrrgreindum kvillum hafa ekki tök á því að hreyfa sig og þá væri aldeilis gott að geta bara drukkið eitt glas af hreyfingu eða hvað?

Rannsókn sem framkvæmd var við Háskólann í Sydney í samstarfi við Háskólann í Kaupmannahöfn snýst um að kortleggja allar þær breytingar sem eiga sér stað í vöðvunum við hreyfingu. Til þess voru fjórir sjálfboðaliðar notaðir, þeir gáfu lífsýni úr vöðva bæði fyrir og eftir hreyfingu og voru sýnin skoðuð í svokölluðum massagreini (mass spectrometry). Í massageini er hægt að greina prótín útfrá massa þeirra. Það sem vísindahópurinn var sérstalega að miða á í þessari rannsókn var að skoða hvort einhver prótín breyttust við hreyfinguna, breyting á prótínum fól þá í sér fosfóryleringu, s.s. að fosfór-hópur var hengdur á prótínin.

Þegar fosfórhópur er hengdur á prótín breytist bygging þeirra og virkni, mjög mörg prótín verða virk þegar búið er að fosfórylera þau. Það má því segja að prótínin séu bara að hanga í vöðvanum þangað til annað prótín kemur til og hengir fosfór hóp á þau. Prótínin sem hengja fosfórhópa á önnur prótín kallast fosfór-kínasar og eru mörg hver vel skilgreind.

Þegar vöðvasýni voru borin saman fyrir og eftir hreyfingu kom í ljós að rúmlega 1000 breytingar urðu á prótínum í vöðvunum. Einhverjar þessara breytinga áttu sér stað fyrir tilstilli þekktra fosfór-kínasa, á prótínum sem áður hafa verið tengd við hreyfingu. En einnig fundust prótín sem ekki hafa áður verið skilgreind sem markprótín fyrir þekkta fosfór-kínasa og mögulegt er að þarna eru á ferðinni fosfór-kínasar sem ekki hafa áður verið skilgreindir.

Með þessum nýju upplýsingum er möguleiki að búa til lyf sem miðar á alla þessa ferla, en ekki einn eða tvo eins og lyf gera nú til dags. Það má því segja að bráðum verði hægt að fá hreyfingu í vökva- eða töfluformi. Rétt er þó að taka fram að verði slíkt lyf til þá er ekki víst að það komi algjörlega í stað hreyfingar þar sem hér er einungis horft á þær breytingar sem verða á fosforyleringu prótína. Mögulega verða fleiri breytingar. Hins vegar getur þetta verið úrræði fyrir fólk sem hefur ekki tök á því að hreyfa sig vegna líkamlegra kvilla.