Það eru ekki mörg ár síðan að vefjasérhæfðarstofnfrumur voru óþekkt fyrirbæri. Í dag sjáum við fleiri og fleiri rannsóknarhópa nýta sér þessar frumugerðir til að skilja sjúkdóma betur sem og þróa meðferðarúrræði gegn þeim.

Einn slíkur hópur er staðsettur við Duke Univerisity í Bandaríkjunum. Hópurinn hefur unnið síðastliðin ár að því að rækta vöðva á rannsóknarstofunni, annars vegar úr vöðvastofnfrumum og hins vegar úr óskyldum vef. Núna í janúar birtist rannsóknargrein eftir hópinn, þar sem myndun vöðva úr húðfrumum er lýst.

Í rannsókninni eru frumur sem einangraðar eru úr húð, látnar undirgangast breytingar sem gefur þeim stofnfrumulíka eiginleika. Eftir það eru frumurnar leiddar í gegnum vöðvafrumumyndandi ferli til að búa til líffæri sem samsvarar vöðva.

Aðaldrifkraftur vöðvamyndunarinnar í þessari rannsókn er annars vegar prótínið Pax7, boðefni sem miðlar myndun vöðvafrumna við þroskun, og hins vegar þrívíð frumuræktun, sem líkir eftir þeim aðstæðum sem fyrirfinnast í líkamanum. Við þessar aðstæður tekst vísindahópnum að láta fyrrum húðfrumurnar halda að þær séu staddar í líkama með það hlutverk að mynda vöðva.

Vefurinn sem varð til við ræktunina brást við áreiti eins og vöðvar eiga að gera, þ.e. samdráttur sem er sambærilegur vöðvasamdrætti átt sér stað. Þrátt fyrir að sýna ekki sama styrkleika og vöðvavefur sem gerður er úr vöðvasérhæfðumstofnfrumum er margt sem má telja þessum nýja vef til framdráttar. Til dæmis er hann ríkur af vefjasérhæfðum stofnfrumum sem finnast í vöðvavef og hafa möguleikann á að mynda heilan vöðva.

Þessar rannsóknir eru ekki einungis mikilvægar til að bæta við þekkingu okkar á þeim ferlum sem liggja á bak við vefjamyndun heldur geta þær einnig reynst mikilvægar til að þróa meðferð við ýmsum sjúkdómum sem leiða til vöðvarýrnunar. Það er óneitanlega jákvætt að geta stuðst við frumur sem ekki koma úr veikum vef eins og vöðvar sjúklinga með hrörnunarsjúkdóma eru oft. Þá opnast einnig möguleikinn á genalækningum áður en frumurnar eru leiddar í gegnum vefjamyndandi ferlið.