Mynd: Pixabay
Mynd: Pixabay

Hundurinn, oft nefndur besti vinur mannsins er tegund sem hefur þróast útfrá úlfum þegar maðurinn fór að ala og rækta úlf. Sú athöfn hefur farið fram fyrir meira en 10.000 árum samkvæmt fornleifafræðinni. En hingað til hefur enginn getað svarað því hvar heimilishundurinn varð til, þ.e. í hvaða heimshluta menn fóru að taka að sér úlfa, sem síðan þróuðust yfir í hunda. Nýlega birtist rannsókn í Science sem gefur til kynna að tegundin sé upprunnin frá fleiri en einum stað.

Í rannsókninni notast vísindahóparnir bæði við erfðafræðirannsóknir sem og fornleifafræðirannsóknir til að erfða- og aldursgreina fornleifar um 60 hunda sem fundist hafa víðsvegar um Evrópu og Asíu og bera þá saman við nútímahundategundir. Með erfðagreiningunum er hægt að rekja ættarsögu hundategundanna. Þegar fornleifar eru svo skoðaða er hægt að tímasetja hvar og hvenær hundar hafa komið við sögu. Þegar þessum upplýsingum er svo fléttað saman kemur í ljós að þó mismunandi hundategundir sé að finna í Evrópu og austur Asíu virðist sá aðskilnaður hafa átt sér stað nær nútímanum en við hefðum haldið.

Svo virðist vera að hundar hafi tvisvar verið teknir inní heimilislíf mannanna, í annað skiptið í austurhluta Asíu og þann síðari nær Evrópu. Síðar hafa tegundir austur Asíu ferðast með manninum til Evrópu og þar hafi kyn hundanna blandast. Í nútímahundum er því að finna leifar af tveimur mismunandi úlfauppruna. Síðar varð svo aftur aðskilnaður tegundanna, sem speglast í muninum milli evrópskra og asískra hundategunda í dag. Báðar greinar ættartrés hundanna er þó hægt að rekja á hvorn uppruna staðinn fyrir sig.