Mynd: Popsugar
Mynd: Popsugar

Á meðgöngu fá konur leiðbeiningar um hvaða fæðutegundir eigi að forðast í þeim tilgangi helst að koma í veg fyrir bakteríursmit sem geta valdið fóstrinu skaða. Fleiri þættir í umhverfinu geta þó haft áhrif á þroska barna í móðurkviði og hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar þar á. Í nýbirtri grein í tímaritinu European Journal of Neuroscience er tekinn saman langur listi yfir þau efni sem mögulega hafa áhrif á þroskun heila, fóstra á fyrstu stigum meðgöngu.

Yfirlitsgreinin sem unnin var við York University tekur saman rannsóknir á áhrifum umhverfisins á magn prostaglandíns E2 (PEG2). PEG2 miðlar mikilvægum boðum á fósturstigi þegar kemur að þroskun heilans, meðal annars við myndun taugafrumumóta og tengja höfundar greinarinnar brenglun í PEG2 sérstaklega við auknar líkur á einhverfu. Í greininni eru talin upp gen sem bæði hafa áhrif á magn PEG2 í líkamanum og eru viðkvæm fyrir ákveðnum efnum sem fyrirfinnast í umhverfi okkar.

Listi genanna virðist óhugnarlega langur og fjöldi efna sem hafa áhrif á þau sömuleiðis. Oft er þessi tilteknu efni að finna í vörum sem við notum daglega eins og snyrtivörum, kremum, hreinsiefnum og lyfjum. En það eru ekki bara efnin sjálf sem hafa áhrif heldur aðallega í hvaða mæli þau eru notuð og hversu oft. Það er líklega ógerningur fyrir nokkurn mann að losa sig við öll þessi efni úr umhverfi sínu, en með því að takmarka notkun þeirra, eins og með því að minnka tíðni notkunarinnar eða nota minna í hvert skipti, ættu ófrískar konur að geta verið nokkuð öruggar að vera ekki að gera ófæddum börnum sínum harm.

Þrátt fyrir það ætti samfélagið að íhuga að reyna að takmarka notkun allra þessara efna, en með tíð og tíma geta þau safnast upp í umhverfi okkar og þá fer áhrifa þeirra að gæta í mun meira mæli.