Mynd: Anthony Mychal
Mynd: Anthony Mychal

Margar rannsóknir hafa verið birtar sem sýna fram á jákvæð áhrif sveltis á öldrun frumna. Hvers vegna þetta gerist er ekki algjörlega skilgreint, hluti skýringanna er að svelti leiðir til þess að litningaendarnir styttast síður en enn vantar nokkur púsl í myndina til að skýra hana.

Nú hefur rannsóknarhópur við Brigham Young University bætt einum bita í safnið með rannsókn sem birtist í Molecular and Cellular Proteomics á dögunum.

Í rannsókninni var notast við tvo músahópa, annar hópurinn fékk að borða óheft meðan hinn fékk einungis allra nauðsynlegustu næringarefni. Þegar prótínsamsetning músafrumnanna var skoðuð eftir meðhöndlun kom í ljós að þegar mýsnar upplifðu svelti hægðist á prótínframleiðslunni. Prótínin eru framleidd í ríbósómum, prótínvélum sem smíða önnur prótín. Þegar hægist á framleiðslu þeirra gefst frumunni tími til að gera við og laga ríbósómin.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins gæti þetta verið skýringin á því hvers vegna svelti dregur úr öldrun. Í stað þess að frumurnar hamist áfram á þreyttum og úrsérgengnum prótínvélum, ríbósómum, gefst þeim loksins tími til gera við vélarnar sínar.

Eins og við þekkjum í okkar daglegu lífi skiptir máli að tæki sem við notum séu í góðu standi til að útkoman heppnist vel. Þannig er því líka farið með ríbósómin, en þegar þau eru í góðu standi heppnast útkoman betur en þegar þreytt ríbósóm eru að störfum.