gym

Er það almenn kurteisi að þurrka svita eftir sig af tækjum sem við höfum verið að nota í líkamsræktarstöðvum eða er meira sem liggur þar að baki?

Upphaflega urðu til tilmæli um slíkt hreinlæti í líkamsræktarstöðvum vegna þess að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmum Staphylococcus aureus poppuðu upp trekk í trekk innan íþróttahreyfinga. Ástæðan, töldu menn, var að sýktur einstaklingur hefðu snert tæki, bolta, lykil, handklæði eða bara eitthvað sem bar smitið yfir í næstu manneskju í ræktinni.

Þangað til nýverið hefur þó enginn vísindahópur haft fyrir því að athuga hvort algengt sé að finna þessa tilteknu sýkjandi bakteríu á líkamsræktartækjum. En í nýrri rannsókn sem framkvæmd var í nokkrum háskólum í Chicago í Bandaríkjunum var farið betur í saumana á því hvaða bakteríur er að finna í ræktinni.

Engar áhyggjur, þér er óhætt að lesa meira, því niðurstaða rannsóknarinnar sem náði til þriggja mismunandi líkamsræktarstöðva gefur til kynna að allar þær bakteríur sem fyrirfinnast í ræktinni finnast einnig í okkar nánasta umhverfi í vinnunni eða heima hjá okkur. Með öðrum orðum, bakteríurnar eru umhverfisbakteríur sem sýkja ekki.

Sýni voru tekin á klukkutímafresti á nokkrum stöðum í hverri líkamsræktarstöð en þar sem mestur umgangur var um tækin virtust verða mestar breytingar á bakteríusamsetningu milli sýnataka. Slíkar niðurstöður koma sennilega ekki á óvart þar sem bakteríurnar fylgja hverjum og einum einastaklingi. Einstaklingar skilja því eftir sig mismunandi tegundasamsetningar á tækjunum og mismikið af bakteríum, svita og öðru slíku.

Sennilega er samt alltaf góð regla að hreinsa vel eftir sig, sérstaklega vegna þess að sé einstaklingur smitaður af sýkjandi bakteríu er ekki hægt að útiloka að hún verði eftir í slíku magni að hún smiti nýjan einstakling. En þó allt hreinlæti sé gott þá er lítil ástæða til að óttast smit og bakteríufælni er því léleg afsökun fyrir að mæta ekki í ræktina.