Mynd: Add a Pinch
Mynd: Add a Pinch

Við eigum, samkvæmt lýðheilsufræðinni, að borða mikið af grænmeti, því þau innihalda mikið af vítamínum og öðrum mikilvægum næringarefnum. Hollar grænmetistegundir bragðast þó misvel og þess vegna reynum við að elda þær til að losna við að minnsta kosti hluta af beiska bragðinu. Við höfum þó líklega öll heyrt að um leið og við meðhöndlum grænmetið tapast næringarefni, er það kannski bara flökkusaga?

Rannsóknir hafa sýnt að um leið og við sjóðum grænmeti þá fer hluti vítamínanna útí vatnið og á þetta sérstaklega við um vatnsleysanleg vítamín. Það er nokkuð auðvelt að mæla þennan leka með því að skoða innihald vatnsins sem við sjóðum grænmetið i. Af þessum ástæðum mæla sérfræðingar með því að geyma vatnið til betri nota eins og til dæmis í súpur eða sósur. Þarna er þó ekki öll sagan sögð, því fleiri mikilvæg efni hverfa við suðu, þau kallast glukósínólat-efni og hafa verið tengd við minnkaða áhættu á krabbameini. Þessi efni fara á sama hátt og vatnsleysanleg efni útí vatnið sem grænmetið er soðið í og þannig tapast þau úr matnum okkar.

En, örvæntið ekki, það er samt ekki nauðsynlegt að borða allt grænmeti hrátt eða í sósuformi Rannsókn sem nýlega var birt í International Journal of Gastronomy and Food Science sýnir að með því að gufusjóða grænmeti þá viðhelst bæði magn vítamína og glukósínólat-efna í grænmetinu. Með gufunni er mun minna vatn sem umlykur matvælin sem dregur þá ekki í sig næringarefnin.

Næst þegar þið ætlið að gæða ykkur á bragðgóðu og bráðhollu grænmeti er þá líklega rétt að matreiða það á sem heppilegastan máta og gufusjóða það.

Heimildir:
Business Insider