Mynd: Popular Science

Hópur vísindamanna undir stjórn Gregory A. Weiss birti nýlega grein þar sem hann lýsir því hvernig hægt er að afsjóða egg.

Hópnum, sem starfar í bæði Kaliforníu og Ástralíu, tókst að þróa aðferð til að snúa við ferlinu sem veldur því að eggjahvítur hlaupa og fara á fast form við suðu. Það sem gerist við suðuna er að prótínin missa byggingu sína og kekkjast eða flækjast saman. Það gerir eggin óneitanlega girnilegri til átu, en að borða eggin var ekki endilega það sem Weiss og hópurinn hans höfðu að leiðarljósi við þróun þessarar aðferðar.

Framleiðsla á prótínum er mikið notuð til dæmis í lyfja og matvælaframleiðslu. Til að koma í veg fyrir að prótínin eyðileggist við framleiðsluna eru oft notaðar dýrar aðferðir, til dæmis að framleiða prótínin í spendýrafrumum. Þessi nýja aðferð er í samanburði við aðrar þekktar aðferðir, kostnaðarminni, tekur minni tíma og að auki verður til hlutfallslega meira að lokaafurðinni.

Hvernig er þetta svo gert? Það fyrsta sem er gert er að fá eggjahvítuna á fljótandi form aftur með þvagefni (urea). Eftir það er eggjahvítunni komið fyrir í tæki sem var þróað af Ástralska hluta hópsins og kallast „vortex fluid device“, tæki sem myndar hringiðu úr vökva. Í tækinu eru prótínin þvinguð aftur á rétt form með þrýsingi. Hópurinn hefur nú þegar sótt um einkaleyfi á aðferðinni og verður spennandi að sjá hvernig þessi tækni kemur til með að nýtast í framtíðinni.