alkaline_diet

Í nútímasamfélagi getur einfaldur hlutur eins og að borða orðið ótrúlega flókinn. Upplýsingar um hvað er hollt dynja á okkur á hverjum degi. Einn daginn þarf matarræðið að vera sérsniðið að blóðflokkinum þínum og þann næsta er það viðhald á sýrustigi líkamans sem gildir.

Þetta getur verið ótrúlega flókið, hverjum er að treysta og hvað af þessu er satt? Sumir hafa sett sér þá reglu að ef matvælin verða til í náttúrunni þá eru þau holl og því óhætt að borða þau. Ef matvælin hins vegar innihaldi efni sem verða til á rannsóknarstofu eða í verksmiðju eru það stórfyrirtæki að eitra fyrir okkur og græða nokkra seðla í leiðinni.

Þetta er því miður ekki svona einfalt. Margir græða einnig á því að selja okkur vörur sem koma beint úr náttúrunni og innihalda oft sömu flóknu efnin og þau sem eru búin til á rannsóknarstofu. Það þýðir ekki að efnin eru eitruð eða óholl, þó vissulega finnist eitruð efni í náttúrunni líka.

Svo hvað er rétt? Hvað má borða og hvað má ekki borða? Eins og alltaf er það hinn gullni meðalvegur sem gildir. Langflest matvæli sem innihalda efni sem verða til á rannsóknarstofu geyma sömu efni og þau sem verða til í náttúrunni. Áður en þið leggið upp í blóðflokkamatarræði eða eitthvað sem gefur álíka flókin fyrirmæli um hvað má borða, lesið ykkur þá til um hvað raunverulega liggur að baki matarræðinu. Eru raunverulegar rannsóknir sem styðja þetta og er peningunum betur varið í sérræktaðan mat en hinn hefðbundna sem við finnum í öllum matvöruverslunum?

Hópurinn í ASAPScience talar í myndbandinu hér að neðan um efnainnihald matvæla, þar er til dæmis góður staður til að byrja á að afla sér upplýsinga um hvaða matarræði hentar best.