mountain-690104_1920

Í vikunni vann Vilborg Arna Gissurardóttir það stórkostlega afrek að verða fyrst íslenskra kvenna til að komast á tind Everest. Það er þrekvirki sem fæstir Jarðabúar koma til með að vinna á lífsleiðinni, ekki síst vegna takmarkana líkama okkar til að þrífast í svo mikilli hæð yfir sjávarmáli.

Einn hópur fólks hefur þó þróað með sér eiginleika sem gera þeim auðveldara að þrífast hátt upp í fjöllunum þar sem andrúmsloftið er súrefnissnauðara en við sem lifum nær sjávarmáli eigum að venjast. Þeir kallast sjerpar og lifa flestir þeirra í fjalllendi Nepal.

Í grein sem birt var fyrr í vikunni er fjallað um niðurstöður rannsóknar sem varpa ljósi á það hvernig sjerpar ná að forðast háfjallaveiki og súrefnisskort.

Tveir hópar, 10 „láglendingar“ sem flestir voru Evrópskir vísindamenn og 15 sjerpar, gengu upp í grunnbúðir Everest sem eru í 5.300 metra hæð yfir sjávarmáli. Áður en ferðin hófst voru tekin blóð og vöðvasýni úr þátttakendum ýmist í London eða Kathmandu í Nepal til að fá grunngildi fyrir efnaskipti þeirra á láglendi. Eftir að komið var í grunnbúðirnar voru sýni tekin á ný og síðan aftur eftir tveggja mánaða dvöl í búðunum.

Sjerparnir skáru sig nokkuð frá hinum hópnum þegar hvatberar, orkueiningar frumna okkar, voru bornir saman. Hvatberar sjerpanna voru skilvirkari í framleiðslu á ATP, sem er orkuríkt efnasamband í frumum líkamans.

Þar að auki höfðu sjerparnir lægri fituoxunargildi sem bendir til þess að þeir eigi auðveldara með það að mynda orku úr sykrum en við. Fituoxun er ekki eins skilvirk og oxun á sykrum þar sem hún nýtir meira súrefni og gæti þessi eiginleiki þeirra því nýst þegar súrefni er af skornum skammti.

Þegar leið á rannsóknina breyttust gildi sjerpanna lítið. Láglendingarnir aðlöguðust aftur á móti aðstæðum og urðu líkamar þeirra hægt og bítandi betri í starfa við þessar nýju aðstæður.

Skýringuna á þessum mun á milli hópanna telja vísindamenn að megi að hluta til rekja til breytileika í geni sem nefnist PPARA (peroxisome proliferator-activated receptor gene) og velur fyrir glúkósa fremur en fitu til að mynda orku. Þeir benda á að munurinn liggi ekki aðeins í þessu eina geni en telja að það gefi sjerpunum forskot á þessu sviði.

Auk breytileika í PPARA geninu virtust sjerparnir hafa betra blóðflæði í gegnum háræðar líkamans. Háræðakerfi þeirra virtist einnig vera viðameira en láglendinganna sem gæti stuðlaða að betri súrefnisflutningi til vefja líkamans.

Vonast er til þess að þessi nýja þekking geti í framtíðinni hjálpað vísindamönnum að þróa nýjar leiðir til að meðhöndla súrefnisskort í vefjum líkamans (e. hypoxia) sem hrjáir ekki aðeins fjallagarpa heldur einnig fjölmarga sjúklinga um allan heim.

Rannsóknarhópurinn samanstóð af vísindamönnum frá Cambridge háskóla, Southampton háskóla, University College London og Innsbruck háskóla og birtust niðurstöðurnar í tímaritinu Proceedings of National Academy of Sciences.