pasta

Óþol og ofnæmi gegn hveiti virðist vera að aukast meðal íbúa vestrænna samfélaga uppá síðkastið. Rannsókn á samsetningu pasta getur hugsanlega varpað ljósi á hvaða áhrif eldunaraðferðir hafa á vöruna og hverjir gætu mögulega borðað hana. Vísindahópur Alan Mackie fór af stað í þetta verkefni til að skilgreina betur hvað verður um prótínin í pastanu við suðu.

Hveiti er ekki sérlega prótínríkur matur en nægilega þó til að geta valdið ofnæmi. Eitt þekktasta dæmið um einstaklinga sem ekki geta borðað hveiti eru einstaklingar sem eru með glúten-óþol. Það er ofnæmisviðbragð við prótíninu glúten sem er m.a. að finna í pasta, óþol er að einhverju leyti rangnefni fyrir þennan tiltekna sjúkdóm. Fleiri prótín eru einnig í hveiti sem geta valdið ofnæmisviðbrögðum.

Í rannsókn sinni hermdi hópurinn eftir ferlinu sem fer af stað við pasta-át. Fyrst var pastað soðið og síðan sett í lausn þar sem hermt var eftir því sem gerist í meltingarveginum. Prótínin sem voru einangruð úr pastanu á nokkrum tímapuntkum í tilrauninni voru svo skilgreind með bindingu við mótefni úr blóði einstaklinga með mismunandi ofnæmi fyrir hveiti.

Helstu niðurstöður hópsins voru þær að suða hefur lítil eða engin áhrif á glúten og því ekki hægt að treysta á þessa eldunaraðferð til að losna við það. Hins vegar voru önnur ofnæmisvaldandi prótín í hveitinu sem hurfu úr pastanu við suðu. Þessar niðurstöður gefa til kynna að einstaklingar sem eru með ofnæmi fyrir hveiti gætu hugsanlega borðað pasta þó bakað hveiti geri óskunda. Rannsóknin varpar nýju ljósi á meðferðir við hveitiofnæmi og þá möguleika sem eru fyrir hendi í þeim efnum.

Fréttatilkynning um rannsóknina má lesa hér.