Egg storage for IVF
Egg storage for IVF

Sífellt fleiri kjósa að eignast börn seinna á lífsleiðinni en áður var. Vegna þess að frjósemi kvenna nær hápunkti tiltölulega snemma og tekur svo að minnka hafa konur gjarnar áhyggjur af því að þær muni ekki geta eignast börn þegar þær vilja. Því verðu æ algengara að konur láti frysta egg sín svo þær geti aukið líkur á því að eignast barn seinna á lífsleiðinni.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um það hvenær sé best fyrir konur að láta frysta egg til að hámarka líkurnar á því að þær geti átt barn þegar þær kjósa það. Nú gæti svarið verið komið en niðurstöður rannsóknar þess efnis á því voru birtar í tímaritinu Fertility and Sterility nýlega.

Mikilvægt er að hafa tvo þætti í huga þegar kemur að því hvenær skuli frysta egg. Í fyrsta lagi skiptir máli hversu lífvænleg eggin verða þegar þau eru þídd og í öðru lagi hversu mikill kostnaðurinn er fyrir konuna (eða parið). Eftir því sem beðið er lengur með að frysta egg verða líkurnar á að þau verði lífvænleg minni. Aftur á móti er ekki ráðlegt að frysta þau of snemma ef litið er á málið út frá kostnaði enda er ólíklegt að ungar konur glími við frjósemisvandamál nokkrum árum seinna.

Í rannsókninni var gögnum safnað úr ýmsum áttum, meðal annars rannsóknum á tíðni náttúrulegra þungana, könnunum og sjúkraskrám. Vísindamennirnir útbjuggu síðan módel sem bar saman líkurnar á því að kona eignaðist barn þegar hún lét frysta egg og líkurnar þegar hún ákvað frekar að reyna að eiga barn á hefðbundinn máta eða með glasafrjóvgun, ef þess þurfti. Gögnin voru skoðuð fyrir konur á aldrinum 25-40 ára og gengið var út frá því að reynt væri að eiga barn 3, 5 eða 7 árum eftir að ákvörðun var tekin um hvort frysta ætti egg eða ekki.

Í ljós kom að konur höfðu mestan hag í því að frysta egg ef þær biðu í 7 ár áður en þær byrjuðu að reyna að eiga barn. Fyrir konur undir 32 ára aldri voru líkurnar á því að eiga barn aðeins 10% meiri ef þær létu frysta egg en ef þær höfðu ekki gert það. Almennt séð virðist því ekki hagstætt fyrir konur að eyða pening í að láta frysta egg á þeim aldri enda er frjósemi enn mikil. Mestan hag í því að láta frysta egg höfðu 37 ára gamlar konur en með því jukust líkur þeirra á því að eignast barn þegar þær urðu 44 ára úr 21,9% í 51,6%.

Frjósemi er flókið mál og þykir læknum almennt tæplega 52% líkur ekki nægilega góðar. Rannsóknarhópurinn mælir því með því að til þess að hámarka árangur og lágmarka kostnað láti konur frysta egg sín á milli 31-33 ára. Það er að sjáflsögðu ekkert algilt í þessum efnum en niðurstöðurnar geta þó gefið þeim konum sem eru að velta þessum málum fyrir sér hugmynd um hvenær sé best að láta frysta egg. Eftir því sem Hvatinn kemst næst er ekki boðið upp á að frysta ófrjóvguð egg kvenna hér á landi að svo stöddu.

Heimild: Science