165129279

Margir Evrópubúar eru ljósir á hörund og nú hefur ný erfðarannsókn varpað ljósi á hvenær það gerðist. Það að vera ljós á hörund á norðurhveli jarðar hafði, auk getunnar til að brjóta niður laktósa, mikla kosti þróunarfræðilega séð umfram dekkri húðlit, að því er kemur fram í rannsókn sem var nýverið kynnt á ráðsefnu American Association of Physical Anthropologists.

Verkefnið 1.000 Genomes Project hefur borið saman genamengi einstaklinga á ákveðnum svæðum í Evrópu. Þeir hafa tekið 83 sýni frá sjö fornum evrópskum menningarheimum og Dr. Iain Mathieson of samstarfsfólk hans við Harvard hafa borið kennsl á fimm eiginleika sem höfðu sterka þróunarfræðilega stöðu í Evrópu. Meðal eiginleikanna er getan til að brjóta niður laktósa sem er talin hafa komið fram fyrir um 4.300 árum. Auk þess var valið fyrir aukinni hæð og ljósari húðlit.

Það kemur líklega engum á óvart að fyrstu mennirnir í Evrópu voru svartir, enda komu þeir hingað frá Afríku. Rannsóknarhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að á síðustu 8.000 árum hafa þrjú gen haft þau áhrif að Evrópubúar þróuðu með sér ljósan húðlit. Fyrir um 8.500 árum voru menn á því svæði sem eru í dag Spánn, Lúxemborg og Ungverjaland dökkir á hörund. Þeir höfðu ekki þær genasamsætur SLC24A5 og SLC45A2 sem valda því að húð verður ljós. Ljósa samsæta SLC24A5 dreifðist um Suður- og Austur-Evrópu með bændum úr austri en samsæta SLC45A2 varð ekki algeng fyrr en fyrir um 5.800 árum síðan.

Norðar í Evrópu þar sem sólarljós var lítið fundust sjö einstaklingar sem voru uppi fyrir um 7.700 árum sem höfðu báðar samsætur sem valda ljósum húðlit. Auk þess höfðu þessir einstaklingar genið HERC2/OCA2 sem veldur því að fólk er með blá augu en er einnig talið stuðla að ljósri húð og ljósu hári. Þetta gefur til kynna að fólk í Norður-Evrópu hafi verið ljóst á hörund en þeir sem bjuggu í Suður-Evrópu hafi enn haft dökka húð. Fyrir um 5.800 árum varð ljósa samsæta SLC45A2 síðan algengari í Suður-Evrópu.

Rannsóknarhópurinn tekur ekki fram hvers vegna var valið svo sterklega fyrir þessum eiginleikum en líklegt þykir að það hafir verið til þess að hámarka upptöku á D-vítamíni í gegnum húðina. D-vítamín upptaka gæti einnig skýrt drifkraftinn á bakvið niðurbrot laktósa, enda mikið af því í mjólkurvörum. Erfðafræðin á bakvið húðlit er flókin og margt er enn óvitað en rannsóknarniðurstöðurnar varpa ljósi á það hvernig hvítir Evrópubúar þróuðust í átt að því sem við þekkjum í dag.

Heimild: Science