Flestir þekkja þá óþægindatilfinningu sem fylgir því að rifja upp vandræðaleg augnarblik eða endurupplifa eitthvað sem var sárt eða óþægilegt. Þrátt fyrir óþægindin sem oft virðast fylgja þessum hugsunum eigum við samt oft erfitt með að losa okkur við þær, en hvers vegna er það? Í nýlega birtri rannsókn er skoðað hvaða boðefni það eru sem liggja að baki þessum hugsunum.

Í rannsókninni eru sjálboðaliðar beðnir um að leggja orðapör á minnið. Pörin eru ekki tengd þannig að til að muna pörin þurfa sjálfboðaliðarnir að mynda nýjar tengingar. Eftir það eru þátttakendur beðnir um að leysa þraut þar sem þau lesa orð og sjá annars vegar grænt ljós og hins vegar rautt. Ef grænt ljós lýsir í kjölfar orðsins sem þau sjá eiga þau að rifja upp hvaða orð parast við orðið sem þeim var sýnt. Ef rautt ljós lýsir eru þau beðin um að hindra upprifjun á orðaparinu.

Á meðan þessum þrautum stendur er fylgst með heila þátttakendanna, annars vegar með fMRI (functional Magnetic Reconance Imaging) sem gefur mynd af því hvernig blóðflæðið breytist í heilanum og hins vegar með MRS (Magnetic Resonance Spectroscopy) sem gefur upplýsingar um hvort boðefnaflæði á sér stað og hvar. Þannig tekst rannsakendum að fylgjast með því hvaða heilastöðvar eru virkar en einnig hvaða efni eru á ferli í þessum virku heilastöðvum.

Í ljós kom að boðefnið sem setur af stað ferlið til að stöðva upprifjun orðaparanna er GABA. Þeir þátttakendur sem sýndu mesta virkni GABA stóðu sig best í að hindra upprifjun orðaparanna. GABA boðefnið er ekki nýtt af nálinni og raunar er það vel þekkt sem hindri á virkni í heilanum.

Þessi rannsókn bætir við þekkingur okkar á kvillum á borð við áfallastreituröskun, en hún felst einmitt í því að einstaklingur rifjar í sífellu upp óþægilegar eða vondar minningar og getur með engu móti losað sig undan þeim. Með því að skilgreina hvaða ferlar það eru sem eru virkir eða óvirkir þegar slík röskun er til staðar erum við skrefi nær því að komast að meðferð.

Meðferðir sem mikið eru notaðar við kvillum þar sem einstaklingar virðast tapa stjórn á hugsunum sínum er hugræn atferlismeðferð. Að öllum líkindum eru einstaklingar sem stunda hugræna atferlismeðferð að ná yfirstjórninni á GABA borðferlunum og hindra þannig framgang slæmra og óæskilegra hugsana.