Mynd: Howcast.com
Mynd: Howcast.com

Bólusetningar barna eru gríðarlega mikilvægar til að vernda börn gegn ýmsum sjúkdómum auk þess að viðhalda hjarðónæmi í samfélögum manna. Lengi hafa verið uppi háværar raddir þeirra sem telja bólusetningar skaðlegar og áhyggjufullir foreldrar snúa sér oft til internetsins til að kanna hvort gagnrýnin eigi við rök að styðjast. Vísindamenn við John Hopkins háskóla könnuðu nýverið þær aðferðir sem eigendur heimasíðanna beita til að fá aðra á sitt band og ræddu niðurstöðurnar á árlegum fundi American Public Health Association.

Í rannsókninni voru skoðaðar hátt í 500 vefsíður sem töluðu gegn bólusetningum og var niðurstaðan sú að upplýsingarnar voru blanda af gervivísindum og villandi upplýsingum. Heimasíðurnar fundu vísindamennirnir í gegnum ýmsar leitarvélar, til dæmis Google, Bing og Yahoo og notuðu leitarorð á borð við “hættur bólusetninga“.

Í ljós kom meðal annars að:

  • fleiri en tvær af hverjum þremur heimasíðum setti fram óvísindalegar upplýsingar og aðrar gerðir villandi upplýsinga sem „vísindaleg“ rök fyrir því að bóluefni séu hættuleg.
  • rökstuðningurinn í eitt af hverju þremur tilvika var í formi persónulegra frásagna.
  • nær tvær af hverjum þremur síðum gáfu til kynna að bóluefni geti valdið einhverfu.
  • 40% síðanna sagði bóluefni geta valdið heilaskaða.
  • meirihluti heimasíðanna sagði upplýsingar vera “vísindalegar” þegar svo var ekki.

Á vefsíðunum mátti, auk þess sem fram kemur hér að ofan, finna góðar og gildar ráðleggingar, meðal annars kosti þess að borða hollan mat (18,5%) og að hafa börn á brjósti (5,5%).

Rannsóknarhópurinn vonast til þess að hægt sé að nota niðurstöðurnar til að hjálpa vísindamönnum að skilja hvernig best sé að ná til þeirra foreldra sem hafa áhyggjur af því að bólusetningar geti skaðað börn sín.