Mynd: Cosmopolitan
Mynd: Cosmopolitan

Hingað til hafa hugmyndir fólks um bragðskyn verið þær að á tungunni sitja viðtakar sem við köllum bragðlauka sem binda mismunandi sameindir og gefa þannig heilanum skilaboð um það hvaða bragð við finnum. En sú hugmynd er kannski ekki alveg rétt, ef marka má rannsókn sem unnin var við Columbia University og birtist nýlega í Nature.

Vísindahópurinn byggði rannsóknir sínar á fyrri birtingum sem sýna að bragðviðtakarnir á tungunni fara hvert og eitt í sérstök heilasvæði sem virkjast þegar ákveðin bragðefni koma til. Þannig má segja að sætt bragð virkjar eina heilastöð meðan biturt virkjar aðra. Þær taugafrumur sem virkjast eru því sértækar fyrir brögðin og það er þar sem við skynjum hvað það er sem við borðum.

Til að skoða hvort skynjunin fer raunverulega fram í heilanum eða á tungunni prófaði rannsóknarhópurinn að annars vegar virkja heilastöðvarnar og hins vegar bæla virkni þeirra, í músum. Á sama tíma fengu mýsnar vökva sem annað hvort var sætur, bitur eða hlutlaus á bragðið. Þar sem sætt bragð gefur til kynna að um orkuríkan mat sé að ræða og biturt gefur til kynna að um skemmdan mat sé að ræða var hægt að meta hvort mýsnar fyndu bragðið með því að skoða breytingar á hegðun þeirra þegar þær smökkuðu vökvann. Í ljós kom að ef virkni heilastöðvanna var bæld niður sýndu mýsnar engin viðbrögð við vökvanum sem þær drukku, sama hvað bragð var af honum.

Hins vegar, ef taugafrumur sem skynja sætt bragð voru virkjaða, skipti mýsnar engu máli hvort þær drukku sætan, bitran eða bragðlausan vökva, þær drukku alltaf hraðar og meira þar sem þær voru að skynja sætt bragð. Það sama var uppá teningnum þegar taugafrumur fyrir biturt bragð voru virkjaðar, en þá hættu mýsnar að drekka, hvernig sem vökvinn var raunverulega á bragðið.

Þetta telur vísindahópurinn að sanni það að túlkun okkar á bragði er ekki lærð hegðun heldur er það heilinn sem varar okkur við þegar við finnum beiskt bragð, að þarna sé eitthvað skemmt á ferð. Að auki er ljóst að bragð er ekki skynjað á tungunni heldur er það virkjun taugafrumnanna sem skiptir máli og tengingin þar á milli er líklegast meðfædd.