bac

Bakteríur í matvælum, drykkjarvatni og t.d. sundlaugum eru álitnar mengun í sjálfu sér, það er að segja séu þar of mikið af bakteríum eða ákveðnar hættulegar tegundir. En annars konar mengun, þ.e. efnamengun getur verið jafnslæm fyrir bakteríurnar og okkur sjálf, með það í huga hannaði vísindahópur við University of Tennesse og Oak Ridge National Laboratory, mengunarpróf sem felur einmitt í sér að meta áhrifin á bakteríur.

Aðferðin felur í sér skilgreiningu á því hvaða bakteríur eru til staðar á tilteknum stöðum. Vegna mikillar vinnu sem nú þegar hefur verið unnin í örverufræði og líftækni eru til miklar upplýsingar um hvaða efni bakteríur geta nýtt og sumar þeirra sérhæfa sig á ákveðnum efnum sem við teljum mengun, eins og olíu.

Sýni eru þá tekin á tilteknum stöðum þar sem talin er vera mengun og úr sýnunum er einangrað bakteríu DNA. DNA-ið er svo raðgreint, en með nýjustu raðgreiningatækni er hægt að fá ótrúlegt magn af upplýsingum á innan við viku, þar sem hægt er að meta hvaða tegundir baktería er að finna í sýninu.

Til að meta hvaða tegundir um ræðir er miðað á að raðgreina eitt gen, sem kallast 16S rRNA gen. Þetta gen tekur þátt í að þýða RNA sameindir yfir í prótín, er mjög mikilvægt fyrir lífveruna og þróast þess vegna mjög hægt. Þess vegna eru breytileikar í þessu genið notaðir til að skilgreina tegundir. Sé tegund þekkt er 16S rRNA röð hennar til í ákveðnum gagnabönkum og þess vegna hægt að bera saman gagnabanka og nýjar raðgreiningar til að sjá hvaða bakteríur eru til staðar.

Nú þegar hefur þessi aðferð verið notuð til að meta mengun í Tennessee og með áframhaldandi rannsóknum í örverufræði mun vonandi bætast í gagnabankann sem leiðir til enn meiri ávinnings af þessari aðferð við að meta mengun.