1.-fishoil

Okkur mætir endalaus hvatning á fisk- og lýsisneyslu. Margir sem hlýða þessari hvatningu finna jákvæðan mun á sér í kjölfarið. Hvers vegna er verið að hvetja okkur til að innbyrða þessi matvæli og er ávinningurinn raunverulegur? Eftirfarandi eru skýringar á mikilvægi D-vítamíns og omega-3 fitusýra, en samantektin er fengin úr grein eftir Rhonda Patrick og Bruce Ames við Barnaspítalann í Oakland Kalíforníu.

D-vítamín er ekki auðfengið í fæðu. Það finnst aðallega í sjávarafurðum en líkaminn framleiðir líka D-vítamín í húð þegar sólarljós skín á hana, sem því miður gerist ekki nægilega oft hér á norðlægum slóðum. D-vítamín miðlar umbreytingu á amínósýrunni tryptófan yfir í serotónín. Serotónín er mikilvægt boðefni í heila sem miðlar hugsunum og tilfinningum. Áhrif vegna skorts á serótónín eru vel þekkt í til dæmis þunglyndi, einhverfu, athyglisbresti og fleiri röskunum á taugakerfinu. Neysla á D-vítamíni er því talin hafa áhrif á þróun þessara sjúkdóma.

Omega-3 fitusýrur samanstanda aðallega af EPA (eicosapentaenoic acid) og DHA (docosahexaenoic acid) fitusýrum, en nöfnin eru tilkomin vegna byggingu fitusýranna, þá skiptir máli hvar og hver fjöldi tvítengja fitusýranna er. Fitusýrurnar eru notaðar í líkamanum sem hluti af frumuhimnunni og stór hluti frumuhimna í heilanum innihalda omega-3 fitusýrur. Líkaminn getur ekki búið þessar fitusýrur til sjálfur og því er mikilvægt að fá þær inn með fæðunni. Það eru þessi fyrrnefndu tvítengi sem gera fitusýrurnar eftirsóknarverðar því þær m.a. gera frumuhimnuna sveigjanlegri eða lækka bræðslumark hennar.

Hlutverk EPA og DHA snýr líka að því að miðla serótónín, en ekki á sama hátt og D-vítamín. EPA örvar losun serotóníns, þá skiptir máli að hlutfall EPA og prostaglandínsins E2 í frumuhimnunni sé rétt, því E2 hamlar losun serótóníns. DHA sér svo um að opna fyrir serótónín viðtaka í frumuhimnunni en því miðlar DHA með fyrrnefndum sveigjanleika í frumuhimnunni.

Í matarræði nútímamannsins er oft vöntun á þessum þremur mikilvægu þáttum. Til að stuðla að aukinni neyslu þarf að bæta fisk og fiskiolíu inní matarræðið. Fiskur inniheldur mikið af omega-3 fitusýrum af sömu ástæðu og við viljum borða þær, því þær lækka bræðslumark frumuhimnunnar sem er mikilvægt fyrir lífverur sem lifa í kulda.