skin

Þeir finnast örugglega ekki margir sem hafa gaman af því að fá bólur, sérstaklega í andlitið. Stundum verður ástandið svo slæmt að fólk þarf að leita sér aðstoðar hjá lækni sem oft hefur ekki sérlega mörg ráð uppí erminni og ráðin reynast líka misvel.

Ástæða þess að við fáum bólur er sú að á húðinni búa milljónir baktería sem í flestum tilfellum eru vinir okkar og verja húðina okkar. Hins vegar kemur það fyrir að bakteríurnar festast ofan í hársekkjum, þar sem aðstæður er slæmar og þá valda bakteríurnar sýkingum. Nýlega var birt rannsókn í Science Immunology þar sem þessu ferli er lýst.

Í rannsókninni var unnið með bakteríu sem þekkt er að valdi bólum Propionibacterium acnes (P. acnes). Þessi baktería tekur einnig þátt í að vernda húðina, en undir vissum kringumstæðum, þegar bakterían kemst í loftfirrtar aðstæður þar sem mikil húðfita er til staðar getur orðið þar sýking. Til að skoða hvernig bakterían hagaði sér á húð vann vísindahópurinn með mýs og skoðaði hvernig húð þeirra brást við aðstæðum.

Þegar P. acnes lendir í loftfirrðum aðstæðum byrjar bakterían að seyta frá sér fitusýrum. Fitusýrurnar hindra virkni ensíma sem frumur í ysta lagi húðarinnar tjá og reiða sig á. Þegar ensímin eru ekki lengur virk fer í gang bólgusvar, vegna þess að húðfrumurnar eru jú að reyna að verja sig og líkamann. Þetta bólgusvar er svo bólurnar sem geta brotist misilla út á húð einstaklinga.

Rannsókn sem þessi gefur okkur grunninn að því hvers vegna bólur myndast. Með því að skilja ferilinn eru meiri líkur á því að geta þróað betri aðferðir til að koma í veg fyrir bólur. Frekari rannsóknir eru á döfinni hjá rannsóknarhópnum sem vill meðal annars skilgreina hvers vegna þetta ferli er svo mismunandi milli einstaklinga. Fjallað er um rannsóknina hjá Medical Xpress og New Scientist