Mynd: ABC-news
Mynd: ABC-news

Það er þekkt staðreynt að eldra fólk er viðkvæmara fyrir flensu en það sem yngra er. Það er ekki einungis vegna þess að líkurnar á smiti eru meiri sem eldri borgarar eru hvattir til að mæta í bólusetningar, heldur vegna þess að flensan getur leitt til dauða þeirra sem eldri eru. En hvers vegna er þetta? Er ónæmiskerfi gamla fólksins svo lélegt að veiran getur fjölgar sér óhindrað og þannig dregið einstaklinginn til dauða? EKki samkvæmt rannsókn sem nýlega birtist í Science.

Til að byrja með vildi hópurinn skoða hver munurinn væri á ónæmiskerfi eldri og yngri einstaklinga. Til þess notaðist hópurinn við ónæmisfrumur einangraðar úr nokkrum einstaklingum og smituðu frumurnar með flensuveirunni. Helsti munurinn á viðbrögðum frumnanna lá í tjáningu þeirra á prótínum sem kallast interferon og eru eitt af fyrstu svörum ónæmiskerfisins við veirum. En þessi prótín var að finna í marktækt minna magni í frumum eldri borgara samanborið við þá yngri.

Til að skoða svo hvaða áhrif það hefði á smitaða einstaklinga bældi hópurinn tjáningu þessara gena í músum sem síðan voru smitaðar með flensuveiru. Mýsnar sem voru í rannsókninni fulltrúar eldri borgara sýndu aukna fjölgun veiranna í frumum sínum enda eru ferlar þeirra til að berjast við veirurnar skertir. En að auki varð bólgusvar ónæmiskerfsins mun sterkara. Svo sterkt að frumur ónæmiskerfisins unnu einnig skaða á lungnavef músanna.

Þetta telur vísindahópurinn vera lykilinn að hættunni sem eldri borgurum stafar af flensunni. Svo það er ekki endilega veiran sjálf sem er hættuleg heldur eru það misheppnuð viðbrögð ónæmiskerfisins sem geta dregið fólk til dauða. Þessar niðurstöður gætu breytt þeirri meðferð sem eldri borgarar fá nú við flensusmiti, þ.e.a.s. ef viðbrögðin reynast svipuð í mannslíkamanum.

Rannsóknarhópurinn sem vann að rannsókninni er staðsettur í Yale. Næstu skref hópsins eru vonandi reyna að sannreyna þessar niðurstöður í mönnum til að svara því hvort breyting á meðhöndlun sjúklinga geti borgað sig.