Inflúensa er veirusýking sem herjar á nær allar þjóðir heims á hverju ári. Veiran ferðast hratt um, er bráðsmitandi og stökkbreytist hratt. Flensan er nokkurn veginn ár viss atburður. Á haustin er einstaklingum ráðlagt að fá sér bólusetningu og í febrúar fyllist bráðamóttakan af fólki sem upplifir óbærilegar kvalir vegna þessarar skæðu veiru.

Ný inflúensa á hverju ári
Það eru nokkrar ástæður fyrir því að bólusetning gegn inflúensu fer fram á hverju einasta ári. Í fyrsta lagi ber að nefna að nokkrir stofnar inflúensuveirunnar geta valdið sýkingu og ekki er alltaf sami stofninn á ferðinni. Stökkbreytingataktur veiranna gerir það að verkum að mótefnavakarnir, sem notaðir eru til að bólusetja breytast stöðugt.

Þetta leiðir til þess að þrátt fyrir stöðugar bólusetningar gegn inflúensu er ráðlagt að fara á hverju ári til að vera öruggur um að hafa vörn gegn þeirri veiru sem er á ferðinni þetta tiltekna ár. Stundum er svo veðjað á rangan veirustofn, því miður, og bólusetningin virkar þá ekki sem skyldi.

Mögulegar breytingar framundan
Nýleg rannsókn á nýrri gerð bóluefna gefur von um að nú sé breyting þar á. Þessi nýju bóluefni byggja á því að kynna ónæmiskerfið fyrir sýklinum á formi mRNA sameindar í stað veiruhluta, sem er þá prótín.

Þegar mRNA-ið er tekið upp af ónæmiskerfinu er það þýtt yfir í prótín, alveg eins og fruman gerir við aðrar mRNA sameindir sem eru framleiddar þar. Prótínið sem verður til er þá veiruprótín sem ónæmiskerfið notar til að búa til mótefni gegn. Ef vírusinn kemst svo í snertingu við einstakling sem hefur verið bólusettur á þennan máta veit ónæmiskerfið að hér er um sýkil að ræða og ræðst strax til atlögu.

mRNA sameind eða prótín sem mótefnavaki
Með því að koma prótíninu inn sem mRNA sameind er hægt að nota stærri svæði sem mótefnavaka. Þegar bóluefni gegn inflúensu eru framleidd er yfirleitt notast við yfirborðsprótín sem gera ekki skaða í líkamanum en hafa þann galla að breytast hratt, þegar vírusinn þróast.

mRNA sameindin sem er notuð í staðin getur skráð fyrir stórum prótínum sem á sama hátt gera engan skaða í líkamanum. Ef svæðið er stærra eru minni líkur á að breytingarnar verði nægilega miklar til að ónæmiskerfið hætti að þekkja það. Auk þess er hægt að velja prótín sem eru minna útsett fyrir stökkbreytingum, þá vegna þess að þau gegna mikilvægara hlutverki í lífi veirunnar.

Tekið saman liggur helsti munurinn í því að mótefnavakinn getur náð yfir stærra svæði. Það er þó einnig erfiðara að koma mRNA sameindum inn sem bóluefni, samanborið við prótín. Líkaminn kærir sig ekki mikið um fljótandi RNA sameindir og eru þær gjarnar klipptar í spað sem komast inn. Til að koma í veg fyrir það þarf að pakka mRNA sameindinni sérstaklega inní nokkurs konar frumuhimnu eða fituhjúp sem hvetur ónæmisfrumurnar til að taka sameindina upp og vinna úr henni prótín.

Góð svörun í ónæmiskerfinu
Í rannsókninni sem birt var í Nature Communications var RNA bóluefnið prófað í músum, kanínum og mörðum. Dýrin voru bólusett með mRNA sameind sem tilheyrir inflúensu veiru. Til að meta áhrif bólsetningarinnar var framkvæmd mótefnamæling í blóði dýranna.

Mótefnaframleiðsla dýranna varð mun meiri en gera má ráð fyrir að eigi sér stað við hefðbundna bólusetningu. Samkvæmt þessum niðurstöðum má því leiða líkur að því að ónæmissvarið verði ekki einungis breiðvirkara með tilliti til veirustofna heldur einnig sterkara þegar mRNA sameind er notuð.

Þó það hafi gefið mjög góða raun í þessum tilraunadýrum er sigurinn ekki í höfn, næst stendur til að prófa bóluefnið í prímötum. Ef það gengur vel eru prófanir í mönnum næst á dagskrá og telur rannsóknarhópurinn vonir til að slíkar prófanir fari í gang innan tveggja ára.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar