Mynd: Keldur
p-image-6176″ /> Mynd: Keldur

Hvatinn sagði fyrr í vetur frá rannsóknum á sumarexemi hesta sem fer fram á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Í þeim rannsóknum skoðaði hópurinn hvort hægt væri að bólusetja hesta við sumarexemi með því að gefa hestunum bygg sem inniheldur ónæmisvakann.

Nú í byrjun mánaðarins birti rannsóknarhópurinn niðurstöður sínar um annars konar bólusetningu, eða bólusetningu sem sprautað er í kjálka, í ritrýnda tímaritinu Veterinary Immunology and Immunopathology. Sagt er frá birtingunni á heimasíðu Lífvísindaseturs.

Eins og kom fram í frétt Hvatans í nóvember þjást útfluttir íslenskir hestar í mörgum tilfellum af sumarexemi sem eru ónæmisviðbrögð hestanna við bitum frá bitmýi, sem ekki finnst hér á landi. Helsta markmið rannsóknahópsins að Keldum er að finna leiðir til að koma í veg fyrir þessi ofnæmisviðbrögð, þá helst með bólusetningu.

Í rannsókn sinni sem birtist á dögunum beinir hópurinn sjónum sínum að bólusetningu með ónæmisvökum úr bitmýinu, þ.e. prótínum sem þekkt er að valdi ofnæmisviðbrögðum hjá hestunum. Helsta markmið rannsóknarinnar var að bera saman tvo ónæmisglæða til að byggja undir frekari þróun bóluefna við þessu hvimleiða vandamáli. Ónæmisglæðar eru efni sem notuð eru við bólusetningar til að hjálpa ónæmiskerfinu að kynnast ónæmisvakanum.

Ónæmisglæðarnir sem hér voru notaðir kallast aluminum hydroxide (ál-hýdroxíð) eða ál-hýdroxíð í og monophosphoryl lipid A, mónófosfórýl lípíð A, sem er fituefni og er skammstafað MPLA. Samtals voru 12 hestar bólusettir með ónæmisvakanum, annars vegar í ál-hýdroxíði einu og sér eða álhýdrosíði með MPLA. Þegar viðbrögð ónæmiskerfisins voru skoðuð kom í ljós að betra ónæmissvar fékkst þegar MPLA var til staðar en þegar ál-hýdroxíð var notað eitt og sér.

Þó hér hafi einungis 12 hestar legið til grundvallar þá gefur rannsóknin góðar vísbendingar um hvernig bóluefni muni hugsanlega vera notuð ef til almennra bólusetninga kemur á hestum. Helsta ástæða þess að svo fáir hestar liggja hér til grundvallar er líklegast sú að hestar eru ekki sérlega hentug tilraunadýr, þeir hafa langt kynslóðabil og það er ekki sérlega ódýrt að viðhalda dýrum af þessari stærðargráðu.