Mynd: Þrándur Arnþórsson
Mynd: Þrándur Arnþórsson

Lífvirk efni finnast út um allt í náttúrunni og eru þau notuð í margvíslegum tilgangi. Sem dæmi flokkast lyf sem fyrirfinnast í náttúrunni til lífvirkra efni og það sama má segja um fæðubótaefni sem geta haft jákvæð áhrif á líkama okkar. Á rannsóknarstofu lífefna og líftækni í Matís er nú unnið að því, í samstarfi við fjölmargar aðrar evrópskar rannsóknarstofur, að finna lífvirk efni í sjónum.

Verkefnið heitir SeaBioTech og er eitt af fjölmörgum evrópuverkefnum sem íslenskir rannsóknarhópar eru aðilar að. Verkefnið felst í því er því að finna lífverur sem lifa í sjó og framleiða sérstök, áður óþekkt, lífvirk efni. Lífverurnar sem hér um ræðir eru aðallega þörungar og bakteríur.

Í meginatriðum er skimað eftir lífverunum með tveimur aðferðum. Önnur aðferðin byggir á því að skoða erfðaefni sjávarlífvera. Þá eru til dæmis bakteríustofnar einangraðir úr sjónum og raðgreindir, s.s. DNA röð þeirra er skilgreind, og síðan er leitað sérstaklega eftir genum sem vitað er að skrá fyrir lífvirkum efnum. Hin nálgunin er sú að einangra öll efni úr þessum sömu lífverum og prófa svo efnin með tilliti til lífvirkni.

Hér á Íslandi er lífvirknin prófuð á rannsóknarstofu Matís á Sauðárkróki en þar eru framkvæmd próf sem mæla andoxunareiginleika og áhrif efnanna á frumulifun. En það er samt sem áður einungis brot af þeim mælingum sem framkvæmdar eru til að skilgreina lífvirk efni.

Nú þegar hafa nokkur álitleg efni komið uppá yfirborðið í verkefninu sem sýna lífvirkni í fjölmörgum prófum og er því næsta skref að framleiða efnin í nægilega miklu magni með því til dæmis að örva bakteríur til framleiðslu.

En verkefnið hefur ekki síður skilað gríðarlegri þekkingu á vistkerfum sjávar við Íslandsstrendur. Samhliða einangrun bakteríustofna hefur tekist að skilgreina samsetningu bakteríuvistkerfa við heita hveri eða heitar uppsprettur í sjó hér við land.