RatBike

Margir þekkja vellíðunartilfinninguna sem fylgir því að stunda líkamsrækt. En af hverju líður okkur betur eftir að við höfum hreyft okkur?

Rannsóknarhópur í University of Georgia skoðaði hvaða áhrif taugapeptíðið (boðefni) galanín, sem er framkallað við hreyfingu, hafði á streitu rottum. Gerð var samanburðarrannsókn þar sem galanín var hamlað í einum hóp en ekki hinum.

Tilgáta hópsins var sú að galanín og líkamsrækt viðhaldi taugavirkni í fremri heilaberkinum sem sér um flóknar skilvitlegar hegðanir, svo sem skiplagningu, ákvarðanatöku, stjórnun tilfinninga og streituþol. Fremri heilabörkurinn rýrnar einmitt þegar fólk glímir við þunglyndi.

Í ljós kom að þegar galanín var hamlað voru rotturnar jafn stressaðar og áður en þær hreyfðu sig. Rotturnar í samanburðarhópunum voru hins vegar marktækt minna stressaðar en áður en þær fóru í ræktina, ef svo má að orði komast.

Niðurstöðurnar hjálpa okkur að skilja enn frekar hvaða jákvæðu áhrif líkamsrækt getur haft á líkamann og hvernig við getum nýtt hreyfingu sem tól í því að auka vellíðan.

Rannsóknin birtist í tímaritinu Neuropharmacology og má lesa nánar um hana og hvernig hún var framkvæmd hér.