alzheimer

Fram að þessu hefur reynst erfitt að greina Alzheimer á byrjunarstigi en rannsóknarhópur í Ástralíu vonast til þess að rannsókn þeirra geti varpað nýju ljósi á sjúkdóminn.

Rannsóknarhópur í the Univeristy of Technology, Sydney (UTS) í Ástralíu hefur verið að rannsaka blóðsýni til þess að kanna hvort einhverjir þættir í blóði gætu gefið til kynna að alzheimer sé til staðar.

Hópurinn telur að próteinið tranferrín gæti verið lykillinn að því að greina Alzheimer fyrr en áður. Transferrín er prótein sem aðstoðar járn á leið sinni um líkamann. Þegar transferrín mætir frumum með ákveðinni gerð af viðtökum (transferrín viðtökum) binst járnið viðtakanum í frumuhimnunni og járnið er flutt inn í frumuna. Ef transferrín virkar ekki sem skyldi getur járn safnast upp í heilanum og leitt til uppsöfnunar á eyðum (plaques), sem hindra flutning á taugaboðum, og taugaflækjum (tangles) leiða til dauða taugafrumna.

Rannsóknin er stór, en í henni er verið að fylgjast með 1.000 manns til lengri tíma. Í rannsókninni sem hér um ræðir voru 34 einstaklingar með sjúkdóminn og 36 heilbrigðir einstaklingar bornir saman. Blóðsýni voru greind með massagreini sem getur greint snefilmálma í litlum styrk.

Í ljós kom að Alzheimer sjúklingar voru með marktækt minna járnmagn í blóði en samanburðarhópurinn. Þrátt fyrir þennan mun var enginn marktækur munur á fjölda transferrín próteina. Transferrín í blóði alzheimer sjúklingannna var þó ekki eins skilvirkt og í heilbrigðum einstaklingum að því leiti að það flutti minna af járni úr heilanum.

Næst skref hópsins er að kanna hvort koparbindipróteinið cerulopasmin sem hefur víxlverkandi áhrif á transferrín og er von þeirra að með tímanum muni þessar upplýsingar aðstoða okkur við það að greina sjúkdóminn fyrr og jafnvel hægja á eða stöðva framvindu hans.

Niðurstöður hópsins voru birtar í the journal ACS Chemical Neuroscience og má sjá fréttatylkinningu um málið hér.