yogurt

Samlífi fjölfrumunga og baktería er sennilega eitt það flóknasta, og á sama tíma vanmetnasta, samstarf sem vísindin ráða í þessi misserin. Rannsóknum þar sem sýnt er fram á áhrif þarmaflóru mannsins á hina ýmsu sjúkdóma rignir inní mikilsvirt vísindarit. Fjöldinn allur af sjúkdómum hefur verið tengdur við ójafnvægi í bakteríuflórunni en skilgreiningar á því hvað er bakteríuflóra í jafnvægi eru enn sem komið er ekki niðurnelgdar.

Alban Gaultier skoðaði í rannsókn sinni hvaða áhrif Lactobacillus, baktería sem finnst m.a. í sýrðum mjólkurvörum, hefur á þunglyndi í músum. Mýsnar voru útsettar fyrir stressi, en vitað er að stress ýtir undir þunglyndi. Eftir það var þarmaflóra músanna skoðuð og kom þá í ljós að mikil fækkun hafði orðið á Lactobacillus. Aukin inntaka á bakteríunni með fæðu dugði samt sem áður til að breyta samsetningu bakteríanna aftur.

Til að skoða hvernig bakterían eða skortur á henni hafði áhrif á mýsnar athugaði hópurinn hvernig samsetning efna í blóði músanna breyttist samhliða breytingum í bakteríuflórunni. Þegar Lactobacillus vantaði jókst magn kynurenine í blóði. En það er umbrotsefni sem hefur áður verið tengt við þunglyndi.

Næstu skref er að skoða hvort samsetning bakteríuflóru manna hefur sömu áhrif og þessi tilraun sýnir í músum. Ef samskonar áhrif koma fram í mönnum getur það leitt til byltingar í meðferðarúrræðum við þunglyndi.

Í dag er þunglyndi og áhrifavaldar þess oft illa skilgreind og þess vegna getur reynst erfitt að meðhöndla það. Mörg lyf leiða til mikilla og alvarlegra aukaverkanna. Þess vegna myndi það hjálpa þeim sem þjást af þunglyndi mjög mikið ef hægt væri að meðhöndla sjúkdóminn með því að koma jafnvægi á bakteríuflóruna.