kaffibaunir

Rannsóknir á kaffi geta oft verið misvísandi og oft virðist skipta mestu máli hvaða þátt er verið að prófa, því kaffi hefur ekki sambærileg áhrif á alla mögulegar breytur líkamans. Ef þú ert kaffimanneskja og hefur enga löngun til að gefa það upp á bátinn, þá er þetta frétt sem þú vilt lesa.

Rannsóknarhópur í nokkrum háskólum í Þýskalandi, undir stjórn Elke Richling, fékk til sín 84 hrausta sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðunum var tilviljanakennt skipt í tvo hópa. Hóparnir voru svipað samsettir hvað varðar líkamsþyngdarstuðul, næringarinntöku og lífsstíl.

Hóparnir fóru fyrst í gegnum fjögurra vikna hreinsun, þar sem hvorugur hópurinn neytti koffíns. Eftir það voru teknar blóðprufur, til að meta tíðni tilviljanakenndra DNA brota, en slík brot eiga sér stað í líkamsfrumum oft hvern einasta dag. Frumurnar gera við DNA brotin svo af þeim hljótist ekki skaði inní frumunni.

Síðan hófst annað fjögurra vikna tímabil þar sem annar hópurinn fékk 750 ml af kaffi meðan hinn hópurinn fékk 750 ml af vatni, daglega. Eftir tilraunatímabilið voru aftur teknar blóð til að meta hvort eitthvað hefði breyst á tímabilinu.

Í rannsókninni kom í ljós að þeir sem drukku 750 ml af kaffi sýndu lægri tíðni DNA brota en viðmiðunarhópurinn. Talið er að andoxunarefni sem myndast þegar kaffið er ristað ásamt caffeoylquinic sýru (CQA), sem finnst í koffíni, séu aðal-áhrifavaldarnir. Það þýðir að kaffidrykkja eykur ekki getu frumnanna til að gera við DNA brotin heldur virkar kaffineyslan verndandi og hindrar það að DNA brotin eigi sér stað í jafnmiklum mæli og annars. Enn á þó eftir að staðfesta hvort það sé tilfellið.

Ávinningur kaffihópsins í þessari rannsókn var mjög skýr þegar horft er á tíðni brota í erfðaefninu. Hins vegar var ekki tekin afstaða til þess hvaða áhrif kaffidrykkja hefur á aðra þætti mannslíkamans.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni