seedling-1062908_1920

Heilinn er engin undantekning frá öðrum hlutum líkamans að því leiti að hann eldist. Með tímanum á heilinn erfiðara með að vinna úr upplýsingum og við verðum gleymin. Því miður verður þetta ástand stundum sjúklegt og háir fólki sem á erfitt með að muna hverjir þeirra nánustu eru eða hvar þau eiga heima.

Rannsóknarteymi við University of Bonn og The Hebrew University of Jerusalem hafa unnið að rannsóknum á öldrun heilans í fjölda ára. Eitt af því sem þessar rannsóknir hafa skilað er sú vitneskja að mýs sem skortir cannabinoid viðtakann CB1 sýna hraðari heilahrörnun en þær mýs sem hafa eðlilegan fjölda viðtaka. Þessir viðtakar binda eins og nafnið gefur til kynna cannabinoid, eða kannabis-efni, þó það sé ekki endilega sú virkni sem líkaminn notar fyrir þessa viðtaka dagsdaglega.

Til að skoða hvort viðtakarnir hefðu áhrif á hrörnun heilans var framkvæmd rannsókn í músum, þar sem þeim var gefinn lítill skammtur af THC. THC er virka efnið í kannabis, það veldur vímu í miklu magni en mýsnar fengu einungis lítinn skammt af efninu þar sem tilgangurinn var ekki að koma af stað vímu. Mýsnar sem voru prófaðar voru 2, 12 og 18 mánaða, en 18 mánaða mýs eru háaldraðar þar sem meðalaldur þeirra í náttúrunni er 12 mánuðir. Til samanburðar fengu mýs á sama aldri lyfleysu svo hægt væri að meta hvort áhrifin væru raunverulega til staðar eða ekki.

Þegar geta músanna til að rata og þekkja aðrar mýs var prófuð, kom í ljós að gömlu mýsnar, sem fengu THC höfðu svipaða heilastarfsemi og þær sem voru tveggja mánaða. Lyfjagjöfin stöðvaði ekki einungis hrörnunina heldur virtist sem henni væri snúið við.

Næstu skref eru að skoða hvort svipaða virkni er að finna í mannaheilum. Ef svo reynist gætum við hér verið með nýtt lyf gegn hrörnunarsjúkdómum eins og Alzheimer’s. Rétt er að ítreka að hér er ekki um að ræða stóra skammta af THC. Efnið veldur því ekki vímu en er notað á svipaðan hátt og nú þegar er gert þegar sjúklingar eru meðhöndlaðir við verkjum.