leaf-02

Ný rannsókn á vegum Northwestern University leiddi í ljós að kannabisreykingar á unglingsaldri hafa slæm áhrif á langtímaminni.

Rannsóknin, sem var birt í tímaritinu Hippocampus, skoðaði heila einstaklinga sem höfðu reykt kannabis daglega í um þrjú ár, frá 16 eða 17 ára aldri. Þegar rannsóknin fór fram höfðu einstaklingarnir ekki reykt kannabis í að minnsta kosti tvö ár og aldrei notað önnur eiturlyf. Rannsóknin skoðaði alls 97 manns, þar á meðal heilbrigðann samanburðarhóp, einstaklinga með geðklofa sem höfðu notaða kannabisefni og einstaklinga með geðklofa sem aldrei höfðu reykt kannabis.

Í ljós kom að dreki heilans, sem gegnir mikilvægu hlutverki í langtímaminni, var öðruvísi í laginu hjá þeim sem höfðu reykt kannabis en í þeim sem aldrei höfðu reykt. Því lengur sem einstaklingar höfðu reykt kannabis, því óeðlilegri var lögun drekans. Einnig fundu vísindamennirnir tengingu milli þess að drekinn var óvenjulegur í laginu og langtímaminnis. Slík tenging hefur ekki verið fundin áður þó að fyrri rannsóknir hafi sýnt fram á bæði breytingu á lögun dreka og lélegt langtímaminni í tengslum við notkun kannabisefna.

Þeir heilbrigðu einstaklingar sem höfðu reykt kannabis stóðu sig 18% verr á minnisprófum en þeir sem aldrei höfðu reykt það. Einstaklingar með geðklofa voru einnig bornir saman og kom í ljós að þeir sem höfðu reykt kannabis stóðu sig 26% verr á minnisprófum en þeir sem voru greindir með geðklofa en höfðu aldrei reykt kannabis.

Samkvæmt Matthew Smith, fyrsta höfundi greinarinnar, sýna niðurstöðurnar fram á að mikil notkun kannabisefna á unglingsárum leiði til breytingar á lögun dreka og lélegs langtímaminnis í allavega nokkur ár eftir að notkun er hætt. Smith bendir þó á að frekari rannsókna sé þörf og þá sérstaklega langtímarannsókna til að skera úr um hvað valdi óeðlilegri lögun drekans.

Fréttatilkynninguna má lesa hér.