Mynd: Samanburður á 42 heilum karla og kvenna. // Zohar Berman and Daphna Joel
Mynd: Samanburður á 42 heilum karla og kvenna. // Zohar Berman and Daphna Joel

Oft er talað um að grundvallarmunur sé á heilum kvenna og karla, en er það rétt? Ekki ef marka má niðurstöður rannsóknar, sem birtar voru í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences nýverið.

Í rannsókninni skoðuðu Daphna Joel, sálfræðingur við Tel-Aviv University, og rannsóknarteymi hennar segulsneiðmyndir af heilum yfir 1.400 manns. Niðurstöðurnar sýndu að þó svo að vissir þætti í heilum karla og kvenna séu mismunandi er í raun ekkert sem karla mætti “karl-“ eða “kvenheila”.

Rannsóknarhópurinn skoðaði ýmsa þætti, svo sem magn grás og hvíts efnis og stærð mismunandi hluta heilans auk eiginleika, svo sem persónueinkenni og viðhorf. Eiginleikarnir voru síðan skilgreindir sem kvenkyns eða karlkyns eftir því hvort þá var að finna í meiri mæli hjá konum eða körlum. Auk þess var einskonar milliflokkur skilgreindur fyrir þá þætti sem skoruðu á milli kynjanna tveggja. Að lokum skoðuðu vísindamennirnir hvar hver og einn heili passaði inn í flokkana þrjá (kvenkyns, karlkyns eða millistigið).

Í ljós kom að munurinn á milli heila kynjanna var sáralítill. Um 25-53% heilanna höfðu bæði kven- og karlkynseiginleika en aðeins var hægt að flokka um 0-8% þeirra sem annað hvort karl- eða kvenkyns.

Rannsóknarhópurinn dregur þá ályktun útfrá niðurstöðum sínum að vegna þess hversu mikið eiginleikarnir skarast á milli kynjanna sé í raun ekki hægt að flokka heila fólks eftir kyni. Fremur séu heilar “einstakt mósaík eiginleika sem sumir geta verið algengari í konum en körlum, aðrir geti verið algengari í körlum en konum og enn aðrir kunna að vera algengir í bæði körlum og konum”.

Eins og vill vera með rannsóknir var þessi ekki án veikleika, til dæmis má benda á að í rannsókninni var ekki skoðað hvernig mynstrin tengjast hegðun. Það er því ekki hægt að segja til um það út frá niðurstöðunum hvort þeir einstaklingar sem töldust vera með með “karmannlegan” heila hegði sér “karlmannlega“.

Joel sagði í samtali við The Guardian að “það sem við sýnum fram á er að það eru margar leiðir til að vera karl eða kona, það er ekki ein leið og flestar þessar leiðir skarast algjörlega”.

Rannsóknarhópurinn hvetur fólk til þess að hugsa út fyrir kassann þegar kemur að kyni og segir Joel að “við verðum að koma fram við hverja manneskju samkvæmt því hver hann eða hún er en ekki hvers kyns kynfærin eru”.