female-male-brain-differences

Munurinn á kynjunum er ekki bara sýnileg einkenni líkamans heldur er einnig munur á því hvernig við virkum og þá meðal annars sýna kynin af sér mismunandi kynhegðun. Ný rannsókn sem birt var í Nature Neuroscience sýnir hvernig kven og karlhormón hafa áhrif á genatjáningu í heila.

Með því að gefa kvenkynsrottufóstrum afleiðu af karlhormóninu testósterón, sem kallast estradíól, fengust ungar sem höfðu líkamleg einkenni kvenrotta en kynhegðun sem samsvaraði karlkyns rottum.

Með þessari hormónagjöf höfðu vísindamennirnir áhrif á tjáningu gena sem kallast Dnmt gen. En þessi gen kóða fyrir ensímum sem færa til metýl á DNA-inu. Oftast þegar DNA er merkt með metýlhópum þýðir það að ekki eigi að tjá tiltekið gen. Þessar niðurstöður benda til þess að kynhormónin hafi með óbeinum hætti áhrif á það hvaða gen eru þögguð með metýleringu og á hvaða genum er kveikt, með af-metýleringu.

Til að sannreyna niðurstöðurnar og prófa hvort einnig væri hægt að hafa áhrif á kyntengda þroskun heilans eftir fósturþroska, var Dnmt hindrum sprautað á ákveðin svæði í heilum rottuunganna. Svæðið sem um ræðir stjórnar karllægri kynhegðun og er kallað POA eða preoptic svæði í heila. Með því að hindra Dnmt í kvenkyns rottum fóru þær að hegða sér eins og karlkyns rottur.

Þessar niðurstöður sýna að áhrif kynhormóna á þroskun heilans er í gegnum stjórnun á genatjáningu og að sá tími sem hægt er að hafa kynmótandi áhrif á heilann, er ekki að fullu skilgreindur.

Hér má lesa fréttatilkynningu University of Maryland um málið.