embryo

Hópur kínverskra vísindamanna sagði frá því í nýrri grein í tímarinu Protein & Cell að þeim hafi tekist breytt erfðaefni fósturvísa fyrstir manna, samkvæmt vefsíðu Nature. Háværir orðrómar þess efnis hafa verið uppi um tíma og eru eðlilega skiptar skoðanir á því hvort það sé siðferðislega rétt að breyta erfðaefni fósturvísa.

Í rannsókninni var notast við fósturvísa sem ekki voru lífvænlegir og voru þeir fengin frá frjósemistöðvum í Kína. Hópurinn reyndi að breyta geni sem veldur sjúkdómnum beta-dvergkornablóðleysi (e. beta-thalassaemia) og er lífshættulegur arfgengur blóðsjúkdómur. Vísindamennirnir beittu erfðatækni sem notar ensímið CRISPR/Cas9 til þess fjarlægja þann hluta erfaefnisins sem veldur sjúkdómnum. CRISPR/Cas9 tekur um 48 klukkustundir til að virka en eftir þann tíma var 71 fósturvísir af 86 enn lifandi. Af þeim voru 54 fósturvísar skoðuð og kom í ljós að tæknin hafði aðeins virkað á um helming þeirra.

Rannsóknahópurinn segir í greinni að ljóst sé að margt komi í veg fyrir að hægt sé að nota tæknina til að breyta erfðamengi fósturvísa í móðurkviði. Þeir vilja þó halda áfram að þróa tæknina svo hægt sé að nota hana í framtíðinni og segja að til þess þurfi virknin að vera nálægt 100%.

Vegna orðrómanna um að kínverskir vísindamenn stæðu í slíkum rannsóknum var grein birt í Nature í mars þar sem talað var gegn breytingum á erfðamengi fósturvísa og vísindamenn hvattir til þess að hætta slíkum rannsóknum þar til búið væri að leysa siðferðisleg álitamál.

Rökin með erfðatækni sem þessari eru að hægt væri að koma í veg fyrir lífshættulega sjúkdóma, til dæmis Huntingtons og Tay-Sachs. Þeir sem eru á móti segja hins vegar að verið sé að breyta erfðaefni einstaklings án þess að hann geti sjálfur gefið fyrir því leyfi. Auk þess er ekki vitað hvaða langtímaafleiðingar slíkar breytingar gætu haft og gæti tekið mörg ár áður en þær koma í ljós. Ljóst er að þetta er eingöngu upphafið á deilum um breytingar á erfðaefni fósturvísa og má ætla að hún muni verða áberandi á komandi árum.