Weight-Loss1

Fyrir margt löngu síðan uppgötvaðist að hormón sem kallast leptín temprar matarlyst hjá fólki og lengi vel var sett mikið púður í að reyna að stjórna leptín magni í líkama fólks sem barðist við kvilla á borð við anorexíu eða offitu. Því miður kom svo í ljós að líkaminn þróar með sér ákveðið þol fyrir hormóninu svo aukning á því hættir að hafa áhrif eftir ákveðinn tíma.

Sem mótsvar við þolinu hófst því leit að einhverju sem kveikir aftur á leptín næmni frumnanna. Eftir langa og stranga leit kom í ljós að planta sem lengi hefur verið notuð sem lyf við t.d. túrverkjum í kínverskri læknisfræði, hefur áhrif á leptín næmni hjá músum. Reyndar er plantan sjálf eitruð ef hún er innbyrt í miklu magni og efnið sem eykur leptín næmnina finnst þar að auki ekki í miklu magni í plöntunni. Efnið heitir celastrol og finnst í plöntu sem gengur undir nafninu „Thunder God Vine“.

Rannsókn sem sýnir hvernig celastrol hefur áhrif á leptín næmni var birt í The Cell á dögunum. Í henni er notast við mýs sem glímdu við offitu. Þeim var gefið celastrol til að auka leptín næmni og árangurinn var ótrúlegur. Mýsnar minnkuðu matarinntöku sína gífurlega og misstu allt að 45% af vigt sinni. Til að staðfesta að áhrifanna gætti í gegnum aukna leptín næmni prófaði hópurinn að setja celastrol í fæðu músa sem höfðu ekkert leptín í líkamanum. Slíkt hafði engin áhrif, enda ekki við því að búast þar sem áhrifum celastrols á fæðuinntöku er miðlað í gegnum leptín hormónið og þau ferli sem því eru tengd.

Þessar niðurstöður gefa góða vísbendingu um við hverju má búast ef menn væru meðhöndlaðir með celastroli. Með áframhaldandi rannsóknum vonast vísindahópurinn til að geta sýnt fram á svipuð áhrif í mannslíkamanum og í framhaldi af því þróað ný meðferðar úrræði við ofáti og offitu.