Mynd: Andrzej Witkowski & Pauli Snoeijs
Mynd: Andrzej Witkowski & Pauli Snoeijs

Eitt þeirra vandamála sem fylgir því að búa til krabbameinslyf er að finna leiðir til þess að lyfið hafi ekki áhrif á aðrar frumur en krabbameinsfrumur. Þetta hefur reynst vísindamönnum erfitt og hafa þær lyfjameðferðir sem notaðar eru í daga mikil áhrif á aðrar frumur líkamans. Nú hefur þó kviknað von í formi kísilþörungs sem vísindamenn í Ástralíu og Þýskalandi erfðabreyttu.

Kísilþörungar eru ljóstillífandi einfrumungar sem eru umluktir gegndræpri kísilstoðgrind. Í rannsókninni, sem birt var í tímaritinu Nature Communications, erfðabreyttu vísindamenn kísilþörungnum Thalassiosira pseudonana þannig að hann framleiddi sértæk mótefnabindandi prótein á yfirborði sínu. Þannig var hægt að fá þörunginn til að bindast eingöngu sameindum á krabbameinsfrumum. Vísindamennirnir komu síðan krabbameinslyfjum fyrir í þörungnum og gátu þannig flutt lyfið í krabbameinsfrumur án þess að það hefði áhrif á aðrar frumur.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að þörungurinn drap allt að 90% krabbameinsfrumna í frumurækt með frumum úr mönnum. Tilraunir á músum sýndu einnig að þörungurinn hafði áhrif á krabbamein í lifandi músum, án þess að hafa neikvæð áhrif á aðrar frumur.

Áður hefur vísindamönnum tekist að nota gegndræp kísilefni á svipaðan hátt en kísilþörungar hafa þann kost framyfir þá tækni að þörungarnir eru mikið ódýrari í framleiðslu enda ljóstillífa þeir og þurfa því eingöngu ljós og vatn til að vaxa. Rannsóknir á meðferðinni eru eingöngu á frumstígi en spennandi verður að fylgjast með framhaldinu.