Mynd: Google Trends
Mynd: Google Trends

Hvort sem það snýst um að hitta æskivinina eða umgangast vinnufélagana þá er nokkuð ljóst að samskipti okkar við annað fólk skipta okkur máli. Skortur á slíkum samskiptum getur jafnvel leitt til vanlíðan og kvíða, en ný rannsókn bendir til þess að slík vanlíðan sé algengari hjá öðru kyninu.

Í rannsókn sem unnin var við University of Calgary var notast við mýs til að meta áhrif félagslegra aðstæðna á mýsnar og hvort munur væri á kynjunum. Annars vegar voru mýsnar látnar ganga í gegnum líkamlegt stress, þ.e. 20 mínútna sund og hins vegar félagslegt stress, þ.e. einangrun í 16-18 klst. Stressviðbrögð í heila músanna voru svo mæld eftir þessar stressandi aðstæður.

Í ljós kom að eftir líkamlegt stress mældust efni í heila músanna sem tengjast stressi óháð kyni. Hins vegar þegar mýsnar höfðu verið einangraðar mældust þessi sömu efni einungis í heila kvenkyns músa. Svo virtist sem karlkyns mýsnar kipptu sér ekki upp við að vera einar.

Þessar niðurstöður benda til þess að kvenkyns mýs hafi meiri þörf fyrir félagsleg samskipti en karlkyns mýs. Það má leiða líkur að því að svipuð áhrif væri hægt að sjá meðal mannfólksins. Ef svo er þá væri ástæða til að skoða hvort meðferð við kvíða eða öðrum sálrænum kvillum þurfi að taka mið af því hvers kyns sjúklingurinn er.